EN

Pjotr Tsjajkovskíj: Sinfónía nr. 5

Meðal þess sem setti svip á þróun tónlistar á 19. öld var hvernig óperan og sinfónían – þungavigtargreinar í heimi þar sem smærri form nutu sívaxandi hylli – fjarlægðust hvort annað smátt og smátt. Í fyrstu voru heimar óperu og sinfóníu tæpast aðskildir, enda átti sinfónían rætur sínar að rekja til óperuforleiksins um miðbik 18. aldar. En þau voru sárafá, tónskáld 19. aldar sem voru jafnvíg á sinfóníu og óperu. Reynum til dæmis að ímynda okkur sinfóníu eftir Verdi eða Músorgskí, eða óperu eftir Brahms eða Bruckner – það er næsta óhugsandi. Beethoven var „einnar-óperu-tónskáld“, Wagner og Bizet voru „einnar-sinfóníu-menn“. Sérstaða Pjotrs Tsjajkovskíj (1840–1893) felst ekki síst í því að hann var eitt fárra tónskálda á 19. öld sem lagði merkan skerf bæði til óperu og sinfóníusmíða.

Ekki leit þó alltaf út fyrir að svo yrði. Í heilan áratug, frá 1878–88, lagði Tsjajkovskíj sinfóníusmíði alfarið á hilluna og einbeitti sér að óperum. Þegar hann tók aftur upp þráðinn með fimmtu sinfóníunni sumarið 1888 var það fyrst og fremst vegna innblásturs frá Franz Liszt. Í tónaljóðum sínum, sinfóníum og píanósónötu gerði hinn síðarnefndi tilraunir með nýstárlega framvindu í margþátta verki: eitt eða fleiri stef hljóma í öllum köflum þess og þannig verður heildarsvipurinn sterkari en ella. Svo er einnig um fimmtu sinfóníu Tsjajkovskíjs. Um merkingu hennar hefur margt verið ritað en fátt er vitað með vissu. Eina vísbendingu er að finna í glósubók Tsjajkovskíjs frá því skömmu áður en hann hóf smíði verksins. Þar skrifar hann: „Inngangur. Algjör uppgjöf frammi fyrir örlögunum? Allegro. Efasemdir, óánægja. Á ég að fleygja mér í faðm trúarinnar?“ Frá því að þessi skissubók kom í leitirnar hefur meginstefið sem birtist hvað eftir annað í ólíkum þáttum verksins fengið nafngiftina „örlagastefið“. 

Fyrsti þáttur hefst með stefi sem ber rússneskan blæ. Laglínan er hæg, melankólsk og dimmradda, eins konar útfararmars leikin af klarínettum á lægsta tónsviði. Þetta er „örlagastefið“ svonefnda sem snýr aftur í öllum seinni köflum verksins. Hér er það þó aðeins inngangur að tveimur aðalstefjum. Klarínett leikur burðarhlutverk í fyrra stefinu, hið seinna er fögur strengjahending sem allt eins ætti heima í balletttónlist. Þættinum lýkur með upphafsstefinu sem verður sífellt drungalegra og deyr að lokum út.

Annar þáttur hefst á fögru stefi í einleikshorni. Hér sannast enn og aftur að Tsjajkofskíj hafði lagræna náðargáfu, var kannski mesti melódíkerinn í hópi sinfóníuskálda síðan Schubert var og hét. Eftir skamma stund verður stefið að dúett með óbói, en síðan taka sellóin við. Þegar Tsjajkovskíj hefur þróað línuna áfram um stund kynnir klarínettið til sögunnar nýtt stef, en framrás þess er skyndilega stöðvuð; örlagastefið ryðst fram og kemur öllu í uppnám. Eftir spennuhlaðna þögn tekst hljómsveitinni að ná áttum um stund. Þá snýr örlagastefið aftur tvíeflt og nú á kaflinn sér ekki viðreisnar von. Ekki líður á löngu þar til tónlistin deyr út, örmagna eftir öll átökin. 

Á 18. öld og fram á þá 19. mælti hefðin svo fyrir að þriðji þáttur sinfóníu skyldi vera menúett eða afbrigði hans; stundum var hann hraðari og kallaðist þá scherzo. Hér bregður Tsjajkovskíj út af vananum og skrifar annars konar dans í þrískiptum takti – þokkafullan vals. Þótt yfirbragðið sé áhyggjulaust skýtur örlagastefið einnig upp kollinum hér, í fagotti skömmu fyrir lok kaflans. Í lokaþættinum er stefið enn í sviðsljósinu, en nú í dúr, bjartara og vonmeira en áður. Eins og í fyrsta kafla er stefið eins konar inngangur að sónötuformi. Þegar hápunkti kaflans er náð hljómar hrynur örlagastefsins enn á ný. Sinfóníunni lýkur með óvæntri vendingu, þegar meginstef fyrsta þáttar snýr aftur og lokar þannig hringnum með áhrifamiklum hætti.