EN

Pjotr Tsjajkovskíj: Sinfónía nr. 4

Fjórða sinfónía Pjotr Tsjajkofskíjs (1840–1893) hefur löngum verið talin sjálfsævisöguleg og markast af dramatískri atburðarás ársins 1877. Tsjajkovskíj hneigðist til karlmanna en snemma þetta ár barst honum bréf frá stúlku sem hafði numið hjá honum við Tónlistarháskólann í Moskvu. Hún játaði honum ást sína og hótaði að binda enda á líf sitt ef hann ekki kvæntist henni. Tsjajkovskíj lét til leiðast en hjónabandið var hreinasta martröð og varði raunar ekki nema í örfáar vikur.

Það er með þetta í huga sem fjölmargir hafa kosið að túlka fjórðu sinfóníu Tsjajkovskíjs, enda gaf hann sjálfur vísbendingu um að verkið væri „örlagasinfónía“ þar sem eigist við tvö öfl, maðurinn og örlög hans, „þetta óstöðvandi afl sem stendur í vegi fyrir hamingju okkar“. Undir lok fyrsta þáttar virðist sem örlögin hafi borið sigur úr býtum. Síðari þættir sinfóníunnar eru með öllu hefðbundnara sniði. Rússneskt þjóðlag („Á akrinum stóð birkitré“) er í aðalhlutverki í lokakaflanum, en Tsjajkofskíj hafði einmitt áður notað þjóðlög heimalandsins sem efnivið og þá gjarnan þegar endir verks var í nánd. Þannig laðaði hann fram glaðværð og kátínu sem honum þóttu viðeigandi punktur aftan við hin sinfónísku átök.