EN

Reinhold Glière: Hornkonsert

Reinhold Glière (1875–1956) var fæddur í Kænugarði en foreldrar hans voru af þýsku og pólsku bergi brotnir. Hann hóf nám við Tónlistarháskólann í Moskvu 19 ára gamall og lærði þar meðal annars tónsmíðar og fiðluleik. Þegar hann útskrifaðist hlaut hann gullverðlaun skólans fyrir einþáttungsóperu sem var lokaverkefni hans, og skömmu síðar fékk hann sinn fyrsta nemanda: hinn ellefu ára gamla Sergei Prokofíev. Eftir nokkur ár í Kænugarði fluttist Glière aftur til Moskvu og kenndi við tónlistarháskólann þar, meðal annars tónskáldunum Aram Katsjatúrían og Alexander Mosolov.

Glière ferðaðist aldrei til Vesturlanda eftir byltinguna 1917 og var eftir því sem best verður séð dyggur sonur Sovétríkjanna. Hann hélt tónleika víða innanlands, m.a. í Síberíu og Úsbekistan, og honum hlotnuðust ýmis verðlaun og viðurkenningar; til dæmis hlaut hann Stalín-verðlaunin í þrígang og var útnefndur þjóðarlistamaður Sovétríkjanna árið 1938. Glière samdi mestmegnis óperur, balletta og kantötur, og tónmál hans þykir einkennast af litríkum hljómum og áhrifum þjóðlaga. Hann var af eldri kynslóð en módernistar eins og Prokofíev og Shostakovitsj; í raun má líta á tónskáld eins og Tsjajkovskíj og Borodin sem andlega forfeður hans. Að auki hafði hann einlægan áhuga á sovéskum þjóðlögum og nýtti þau stundum í tónlist sinni. Því varð hann ekki fyrir barðinu á stjórnvöldum á sama hátt og ýmsir yngri starfsbræður hans.

Glière samdi hornkonsert sinn árið 1951 og var hann frumfluttur í Leníngrad sama ár. Einleikarinn var Valeríj Polekh, aðalhornleikari Bolshoi-hljómsveitarinnar, og samdi hann einleikskadensuna sem oftast er flutt sem hluti af verkinu. Verkið hefur rómantískt yfirbragð, er í raun undir þýskum áhrifum og stundum virðist fyrri hornkonsert Richards Strauss ekki langt undan. Breiðar, ljóðrænar hendingar einkenna verkið sem gefur hornleikaranum einstakt færi á að sýna hæfileika sína, enda er konsertinn almennt talinn meðal þeirra helstu sem samdir hafa verið fyrir hljóðfærið.