EN

Richard Strauss: Dauði og uppljómun

Enda þótt tónaljóðið Dauði og uppljómun (Tod und Verklärung) sé samið einungis átta árum á eftir Serenöðunni op. 7 kveður hér við allt annan tón. Þegar Strauss kom til Meiningen komst hann í kynni við tónskáldið Alexander Ritter sem lék á fiðlu í hljómsveitinni þar. Ritter hafði mikil áhrif á hinn unga Strauss, opnaði fyrir honum verk Liszts og Wagners og kynnti hann fyrir hugmyndum heimspekingsins Arthurs Schopenhauer um að listir, ekki síst tónlistin, gætu opnað manneskjunni sýn í kjarna hlutanna, sýn sem væri óháð viljanum er annars stýrði allri viðleitni lifandi vera. 

Strauss fetaði nú í fótspor Hectors Berlioz og annarra forsprakka svokallaðrar prógrammtónlistar sem leituðu leiða til þess að endurnýja hið sinfóníska form. Á árunum 1885 til 1898 samdi hann röð tónaljóða sem spegla til að mynda reynslu af náttúru og landslagi (Aus Italien) eða takast á við bókmenntaverk eða -persónur (Macbeth, Don Juan, Also sprach Zarathustra o.fl.). Í Dauða og uppljómun, sem er hið fimmta af þessum verkum, samið árið 1889, túlkar Strauss dauðastríð listamanns. Að baki verksins er „prógramm“ sem ber keim af hugmyndum Schopenhauers og Strauss lýsti á þessa leið: 


Tónaljóðið tjáir síðustu stundir í lífi manneskju sem stefndi að æðsta marki, semsagt listamanns. Hinn dauðvona mókir á dánarbeði, andar þungt og óreglulega; ljúfir draumar kalla fram bros á þjáðri ásjónu hans; svefninn verður hægari; hann vaknar á ný, hræðilegar kvalir sækja aftur á hann, sótthitinn skekur hann - þegar flogunum slotar og verkirnir réna hugsar hann um ævi sína: bernskan líður fyrir hugskotssjónum hans, æskan með öllum sínum áformum og ástríðum og - þegar kvalirnar aukast á ný sér hann það sem hefur lýst honum leið: það er hugsjónin, ídealið sem hann hefur reynt að fanga í list sinni en án árangurs því slíkt er ofviða dauðlegum manni; dauðinn fer að honum, sálin yfirgefur líkamann og finnur í eilífð alheimsins þá sælu fullkomnun sem ókleift var að ná niðri hér.


Strauss taldi engan veginn nauðsynlegt að áheyrendur kynntu sér „prógrammið“ til þess að geta notið tónlistarinnar. Í hans augum var það eins konar rammi til þess að halda utan um tónhugmyndirnar sem fyrst og fremst tjáðu hans eigin tilfinningar, en honum fannst ómaksins verk að koma „prógramminu“ í orð ef það mætti hjálpa áheyrendum við að átta sig á verkinu.

Svanhildur Óskarsdóttir