EN

Richard Strauss: Don Juan

Stærsti áhrifavaldurinn í tónuppeldi Richards Strauss var faðir hans, sem hafði íhaldssaman tónlistarsmekk. En þegar Strauss hinn yngri stóð á tvítugu urðu straumhvörf í listrænum skoðunum hans. Í stað þess að leita fyrirmynda í verkum eftir Schumann og Brahms tók hann að aðhyllast „tónlist framtíðarinnar“ eins og hún birtist hjá Liszt og Wagner. „Nýjar hugmyndir þurfa ný form,“ þrumaði Strauss, sem tók skömmu síðar við stöðu hljómsveitarstjóra í München og tók að þreifa sig áfram með smíði tónaljóða samkvæmt forskrift Liszts. Þegar Don Juan hljómaði í fyrsta sinn í Weimar árið 1889 voru viðtökurnar allar á einn veg. Strauss var á einni nóttu orðinn skærasta stjarnan í þýskum tónskáldskap og þótti verðugur arftaki þeirra Liszts og Wagners sem báðir voru nýlátnir.

Stærsti áhrifavaldurinn í tónuppeldi Richards Strauss var faðir hans, sem hafði íhaldssaman tónlistarsmekk. En þegar Strauss hinn yngri stóð á tvítugu urðu straumhvörf í listrænum skoðunum hans. Í stað þess að leita fyrirmynda í verkum eftir Schumann og Brahms tók hann að aðhyllast „tónlist framtíðarinnar“ eins og hún birtist hjá Liszt og Wagner. „Nýjar hugmyndir þurfa ný form,“ þrumaði Strauss, sem tók skömmu síðar við stöðu hljómsveitarstjóra í München og tók að þreifa sig áfram með smíði tónaljóða samkvæmt forskrift Liszts. Þegar Don Juan hljómaði í fyrsta sinn í Weimar árið 1889 voru viðtökurnar allar á einn veg. Strauss var á einni nóttu orðinn skærasta stjarnan í þýskum tónskáldskap og þótti verðugur arftaki þeirra Liszts og Wagners sem báðir voru nýlátnir.

Í Don Juan dregur Strauss upp mynd af hetju sem lendir í ýmsum ævintýrum og lifir bæði hátt og hratt. Hann sótti innblástur í ljóðleik Nikulásar Lenau (1802–1850), þar sem ævintýrið fær annan enda en venjan er. Don Juan þreytist að lokum á líferni flagarans og missir svo gersamlega lífslöngunina að hann lætur drepa sig í einvígi. Verkið hefst með mikilfenglegum lúðrablæstri: Don Juan þeytist fram á sjónarsviðið fullur sjálfsöryggis. Stef hans hljómar með reglulegu millibili verkið á enda, en á milli eru ljóðrænni kaflar sem tákna ástmeyjar kvennabósans. Fyrsti millikaflinn er stuttur, með flögrandi fiðluleik, og í næsta millispili kveður einnig við blíðan tón. Kaflinn sem líklega á að túlka þriðju ástmeyna er mun lengri og ástríðufyllri en hinir fyrri. Má vera að Don Juan sé hér að upplifa sanna ást í fyrsta sinn?

Í lokatöktunum dregur ský fyrir sólu og að endingu deyr tónlistin út með veiku strengjaplokki. Don Juan liggur örendur í lok verksins, bugaður af fýsn sem ekkert fékk svalað. Óvenjuleg framvindan er, svo vísað sé til næsta tónaljóðs sem Strauss samdi, eins konar „Verklärung und Tod“ eða Uppljómun og dauði. Hún er í fullu samræmi við yrkisefnið eins og það birtist hjá skáldinu Lenau og um leið mikið afrek hjá hinu unga tónskáldi sem átti eftir að marka djúp spor í sögu tónlistarinnar.