EN

Richard Strauss: Fjórir síðustu söngvar

Richard Strauss þekkti möguleika mannsraddarinnar betur en flest önnur tónskáld 20. aldar. Á löngum ferli samdi hann yfir 200 sönglög og hátt í 20 óperur, og var einn þeirra sem lögðu hvað stærstan skerf til óperuformsins á síðustu öld, ásamt Benjamin Britten og Leoš Janáček. Hvergi naut hann sín betur en þegar hann samdi fyrir sópranröddina, sem var honum einkar hugstæð alla ævi. Mörg stórkostlegustu augnablik sem þeirri raddgerð hafa verið gefin í tónlistinni er að finna í óperum á borð við Salóme og Rósarriddarann. Að þessu leyti eru Fjórir síðustu söngvar rökréttur endapunktur við ævistarf höfundarins. Strauss samdi þá milli maí og september 1948, ári fyrir andlát sitt. Honum entist ekki aldur til að heyra söngvana flutta á tónleikum; Kirsten Flagstad frumflutti þá í maí 1950 ásamt hljómsveitinni Fílharmóníu í Lundúnum undir stjórn Wilhelms Furtwängler.

Á ævi tónskáldsins hafði margt farið á annan veg en ætlað var. Strauss átti farsælan feril allt þar til undirgefni hans við stjórn Hitlers setti strik í reikninginn. Skömmu eftir valdatöku nasista árið 1933 var Strauss skipaður yfirmaður tónlistardeildar ríkisins og sá þann kost vænstan að samþykkja möglunarlaust. Með nafni sínu léði hann stofnuninni aukið vægi og ekki varð betur séð en að hann væri fylgjandi því þegar ákveðið var að banna verk tiltekinna „óæskilegra“ tónskálda. Strauss var ekki hliðhollur nasistum en átti óhægt um vik þar sem tengdadóttir hans var gyðingaættar. Ekki leið heldur á löngu þar til hann hafði bakað sér óvild stjórnvalda með því að efna til óperusamstarfs við rithöfundinn Stefan Zweig sem einnig var af gyðingaættum. Þegar Gestapo komst yfir bréf þar sem Strauss fór niðrandi orðum um kynþáttastefnu nasista fór málið alla leið á borð Hitlers og tónskáldið var umsvifalaust sett út í kuldann.

Við lok síðari heimsstyrjaldar var Strauss rúinn trausti og tekjur hans nánast engar enda óperuhús og tónleikasalir Þýskalands í rústum. Að lokum yfirgaf hann sveitasetur sitt í Bæjaralandi og fluttist til Sviss ásamt eiginkonu sinni. Í Fjórum síðustu söngvum bendir fátt til þess að tónlistin sé samin um miðja 20. öld; hún er angurvær og tregablandin. Það haustar að í þessum söngvum, í fleiri en einum skilningi. Í síðasta laginu, Im Abendrot, andar skáldið að sér kvöldloftinu og hugleiðir nóttina og dauðann. Í fjarska heyrist söngur tveggja lævirkja en síðan er eins og tíminn standi í stað. „Er þetta kannski dauðinn?“ spyr söngkonan og henni er svarað með dulúðugum hljómum. Í kyrrlátum lokatöktunum horfist hinn aldni tónsmiður í augu við skapanornirnar og gengur óbugaður út í hina löngu nótt.