EN

Richard Strauss: Hornkonsert nr. 1

Richard Strauss (1864–1949) var einn fjölmargra tónskálda sögunnar sem fæddist inn í tónlistarfjölskyldu. Faðir hans, Franz, var einn kunnasti hornleikari Þýskalands og starfaði um áratuga skeið sem leiðandi hornleikari Konunglegu hirðhljómsveitarinnar í München. Þar tók hann til dæmis þátt í að frumflytja Tristan og Ísold og Valkyrjuna eftir Wagner. En Franz Strauss þótti lítið til Wagners koma. Hann hafði íhaldssaman tónlistarsmekk og tónlistaruppeldi Richards var eftir því; í foreldrahúsum kynntist hann helst verkum eftir Mozart og Beethoven, Schubert og Mendelssohn.

Richard Strauss (1864–1949) var einn fjölmargra tónskálda sögunnar sem fæddist inn í tónlistarfjölskyldu. Faðir hans, Franz, var einn kunnasti hornleikari Þýskalands og starfaði um áratuga skeið sem leiðandi hornleikari Konunglegu hirðhljómsveitarinnar í München. Þar tók hann til dæmis þátt í að frumflytja Tristan og Ísold og Valkyrjuna eftir Wagner. En Franz Strauss þótti lítið til Wagners koma. Hann hafði íhaldssaman tónlistarsmekk og tónlistaruppeldi Richards var eftir því; í foreldrahúsum kynntist hann helst verkum eftir Mozart og Beethoven, Schubert og Mendelssohn.

Richard Strauss hóf tónlistarnám fjögurra ára gamall og samdi sína fyrstu tónsmíð tveimur árum síðar. Hann lærði fyrst á píanó, síðar einnig á fiðlu og tónsmíðar hjá færustu kennurum í heimaborginni München. Hornkonsertinn nr. 1 varð til á árunum 1882–83, þegar Strauss var aðeins átján ára gamall. Konsertinn tileinkaði hann vitaskuld föður sínum, en Franz Strauss þótti tónsmíðin hættulega erfið, ekki síst hæstu tónarnir, og lék verkið aldrei opinberlega. Einn af nemendum hans tók að sér frumflutninginn árið 1883, með píanóundirleik, og tveimur árum síðar hljómaði verkið í fyrsta sinn með hljómsveit.

Tónlistin er í fremur hefðbundnum stíl rómantíkur enda varla við því að búast að átján ára piltur með íhaldssaman tónlistarsmekk ryðji nýja braut í þeim efnum. Þó er eftirtektarvert af hve miklu öryggi tónskáldið Strauss birtist í þessu verki. Hornlínurnar eru glæsilegar og útsetningin fyrir hljómsveit er sömuleiðis hreinasta afbragð. Það var svo tveimur árum eftir að Strauss samdi hornkonsertinn að hann tók að endurmeta tónsmíðar Wagners og tók sér stöðu með framsæknari tónskáldum Þýskalands, eins og heyra má í tónaljóðinu Don Juan eftir Strauss.