EN

Richard Strauss: Hornkonsert nr. 2

Richard Strauss (1864–1949) hafði alla tíð dálæti á horninu og hljómi þess. Faðir hans, Franz Strauss, var einn fremsti hornleikari Evrópu á sinni tíð og gegndi stöðu fyrsta hornleikara við hirðhljómsveitina í München. Það orð fór af föðurnum að hann væri skapstór og erfiður í samskiptum. Richard fór ekki varhluta af því þegar hann lék með föður sínum á píanóið: „Hann átti það til að öskra á mig ef ég flýtti tempóinu, en ég lærði ótal margt af því að leika með honum í hornkonsertum Mozarts og sónötu Beethovens.“

Richard Strauss samdi fyrri hornkonsert sinn aðeins átján ára gamall en seinni hornkonsert hans varð til sex áratugum síðar, í miðjum hörmungum heimsstyrjaldarinnar síðari, á árunum 1941–42. Hann var frumfluttur á tónlistarhátíðinni í Salzburg í ágúst 1943 og er tileinkaður „minningu föður míns“.

Tónlistin í seinni hornkonserti Strauss er ljóðræn og gerir miklar kröfur til einleikarans, enda er erfiðleikagráðan líklega helsta ástæða þess hversu sjaldan konsertinn heyrist opinberlega. Formið er tiltölulega hefðbundið og fyrsti þátturinn einkennist af skemmtilegum hljómrænum útúrdúrum og eins konar samtölum milli einleikarans og hljóðfæra hljómsveitarinnar, til dæmis klarínettu, einleiksfiðlu og óbós. Fyrsti þáttur rennur saman við þann næsta sem er draumkenndur hægur kafli. Lokaþátturinn er glaðvært rondó þar sem einleikarinn bregður á leik og fær sannarlega næg tækifæri til að sýna listir sínar.