EN

Richard Strauss: Metamorphosen (Ummyndanir)

Menningarlegt hrun Þýskalands undir ógnarstjórn nasista og eyðilegging heimsstyrjaldarinnar síðari lagðist þungt á öldunginn Richard Strauss (1864–1949). Eftir að óperuhúsið í München var eyðilagt í loftárásum 2. október 1943 dró hann sig í hlé og hugðist ekki semja tónlist framar. En þegar svissneski hljómsveitarstjórinn Paul Sacher hafði samband við hann nokkrum mánuðum síðar og bað hann um verk fyrir strengjasveit greip hann tækifærið til þess að tjá sorg sína: „Trauer um München“ skrifaði hann efst á raddskrána. Þegar þarna var komið sögu saxaðist enn á byggingararf Evrópu; Goethe-húsið í Frankfurt var rústir einar og sprengjur Bandamanna áttu líka eftir að granda óperuhúsunum í Vínarborg og Dresden. Öll þessi hús stóðu Strauss nærri. Óperuhúsin af augljósum ástæðum: í München fæddist hann og ólst upp en Dresden og Vín voru húsin þar sem óperur hans voru frumfluttar. Strauss var mjög handgenginn verkum Goethes og endurlas þau öll á gamals aldri, í tímaröð, og hafði á orði að þannig gæti hann orðið ungur aftur en elst síðan með skáldinu. Þessi ferð með Goethe var áreiðanlega að ýmsu leyti sjálfskönnun listamanns sem átti langan og viðburðaríkan feril að baki.

Ummyndanir Strauss eru hugsanlega sprottnar úr þessari sjálfskönnun en titill verksins kinkar einnig kolli til skrifa Goethes um ummyndanir í náttúrunni, til að mynda í plöntum. Skáldið útvíkkaði síðan þær hugmyndir til að lýsa því hvernig menningarleg fyrirbæri geta þróast gegnum breytileg form. Í verki sínu staðsetur Strauss sig innan hinnar glæstu hefðar þýskrar tónlistar og lætur fljóta þar inn tónhugmyndir fyrirrennara sinna, einkum Wagners og Beethovens, en fellir þær að sínum markmiðum.

Verkið er skrifað fyrir 23 stök strengjahljóðfæri. Það hefst á hægferðugum inngangi en vefnaður þess þéttist jafnt og þétt og efniviðurinn ummyndast sannarlega á ótal vegu í samspili hljóðfæranna þar til hápunkti er náð og eins konar eftirþankar taka við, þrungnir trega og eftirsjá.