Richard Strauss: Svíta úr óperunni Elektra
Richard Strauss samdi sautján óperur á langri og gifturíkri ævi. Þá fyrstu samdi hann aðeins tólf ára gamall og hefur hún aldrei verið sýnd og síðustu óperuna náði hann ekki að ljúka við. Hinar óperurnar fimmtán hafa allar ratað á fjalir óperuhúsa um víða veröld og flestar þeirra verið þar fastagestir frá upphafi. Er Richard Strauss vissulega það tónskáld 20. aldarinnar sem mestra vinsælda nýtur í óperuheiminum.
Söguþráður óperunnar í stuttu máli:
Agamemnon konungur í Mýkenu og kona hans Klýtemnestra eiga fjögur börn: Iffígeníu, Elektru, Krýsóþemis og Órestes. Þegar gríski flotinn hyggst flýja Tróju hindrar logn förina. Agamemnon verður að fórna gyðjunni Artemis dóttur sinni Iffígeníu til að fá byr í seglin. Þetta fyrirgefur Klýtemnestra manni sínum aldrei.
Agamemnon konungur snýr heim eftir Trjójustríðið og er eftir heimkomuna myrtur af konu sinni Klýtemnestru og Ægisþosi ástmanni hennar. Síðan ríkir parið í Mýkenu og heldur systrunum Elektru og Krýsóþemis föngnum í konungshöllinni en Órestes bróðir þeirra er horfinn eftir að hafa verið gerður útlægur. Samviskubit heldur vöku fyrir Klýtemnestru en Elektra hugsar um það eitt að hefna föður síns. Fréttir berast af dauða Orestusar en skyndilega birtist hann ljóslifandi, drepur móður sína og hinn föðurmorðingjann. Elektra fagnar og upphefur villtan dans. Krýsóþemis reynir árangurslaust að róa systur sína en Elektra fellur í hamslausri sigurvímu dauð til jarðar.
Hljómsveitarsvítan úr Elektru eftir hljómsveitarstjórann Manfred Honeck og tónskáldið Thomáš Ille frá árinu 2016 er í 12 hlutum og endurspeglar innihald óperunnar í þjöppuðu formi. Frá harmakveini Elektru eftir lát föðurins, hatrammri deilu við móðurina Klýtemnestru, endurfundina við bróðurinn Órestes og móðurmorð hans, til hins ofsalega dans Elektru í lokin.