Richard Strauss: Þættir úr ballettinum Schlagobers
Þýska tónskáldið Richard Strauss (1864–1949) samdi um ævina þrjá balletta, Josephs Legende 1912–14 og Verklungene Feste 1941. Ballettinn Schlagobers var aftur á móti fullbúinn árið 1922. Strauss hafði tekið við stöðu óperustjóra Vínaróperunnar við hlið hljómsveitarstjórans Franz Schalk þremur árum fyrr og vildi styðja ballett hússins með nýju verki. Þar sem samband hans við textahöfundinn Hugo von Hoffmannsthal var um þessar mundir frekar stirt, skrifaði Strauss sjálfur handritið að ballettinum Þeyttur rjómi. Vínarborg hefur löngum verið þekkt fyrir kaffihúsamenningu sína og ákvað Strauss að heiðra þessar menningarstofnanir á gamansaman hátt. Verkið var frumflutt í Vínaróperunni 9. maí 1924. Tónlistin og kóreógrafían fengu lofsamlega dóma en sýningin í heild, íburðarmikil sviðssetning, allsnægtir og ofát á tímum efnahagskreppu í kjölfar heimsstyrjaldar, gekk fram af flestum.
Verkið var hvergi flutt í heild sinni næstu áratugina en í tilefni af 150 ára afmælis Strauss var ballettinn sýndur í Carnegie Hall í New York og í Gärtnerplatztheater í München.
Ballettinn er í tveimur þáttum og er söguþráðurinn er í stuttum máli á þessa leið: Hópur barna heldur uppá ferminguna í stórri kökubúð í Vín og má í tilefni dagsins gæða sér ótakmarkað á fínustu tertum með þeyttum rjóma og öðrum sætindum. Einum drengjanna verður illt og hann upplifir drauma og martraðir þar sem sætindin lifna við og verða dansandi marsípan- og súkkulaðikarlar og kerlingar.
Strauss gerði hljómsveitarsvítu í átta þáttum uppúr ballettinum árið 1922 og á tónleikunum hljóma fjórir síðustu kaflarnir.