EN
  • Richard_wagner-original4

Richard Wagner: Valkyrjan

Niflungahringurinn eftir Richard Wagner er án nokkurs vafa eitt metnaðarfyllsta óperuverk tónlistarsögunnar. Smíði þess tók því ríflega aldarfjórðung, samanlagt taka óperurnar fjórar um fimmtán klukkustundir í flutningi og gera fáheyrðar kröfur til söngvara og hljómsveitar. Það var um 1845 Wagner fékk hugmynd að nýrri óperu sem fjalla átti um Sigurð Fáfnisbana við hirð Gjúkunga. Frá honum er sagt bæði í norrænum sögum og þýska miðaldakvæðinu Nibelungenlied. Hann ritaði óperutextann Siegfrieds Tod (Dauði Sigurðar) en sá fljótt að skýra þyrfti atburðarásina betur með því að bæta framan við söguna. Útkoman varð textinn að enn annarri óperu, Der junge Siegfried (Sigurður ungi). Þá varð honum hins vegar ljóst að tvær þyrfti til viðbótar til þess að sagan kæmist til skila á viðunandi hátt. Viðfangsefnið var líka orðið ólíkt viðameira en ætlað var í fyrstu – sköpun heimsins og endalok hans. Í slíka sögu nægði ekki gamla Niflungakvæðið og því leitaði Wagner fanga í fornum íslenskum sagnaarfi, ekki síst Eddukvæðum, Snorra-Eddu og Völsunga sögu sem hann átti í fórum sínum í þýskri þýðingu.

Wagner hóf ekki tónsmíðarnar fyrr en allur textinn var til reiðu og því samdi hann varla einn einasta tón í fimm ár. Tónlistina samdi Wagner að stórum hluta á árunum 1853–57 en þegar hann var langt kominn með Siegfried lagði hann handritið til hliðar, samdi tvær alls óskyldar óperur og tók ekki aftur til við verkið fyrr en 1869. Í texta Niflungahringsins líkir Wagner eftir fornum íslenskum bragarháttum, fornyrðislagi og ljóðahætti. Hinir fornu bragarhættir gáfu Wagner kost á meiri sveigjanleika en hann hafði áður þekkt hvað varðar hendingaskipan og áherslur í tónlistinni. Raunar hreifst hann svo mjög af stuðlasetningu fornkvæðanna að honum hættir til að vera örlátari á ljóðstafi en reglurnar gera ráð fyrir.

Fyrsta óperan, Rínargullið, er styst þeirra allra. Þar segir frá Niflunginum Alberich hefur rænt gulli frá þremur Rínarmeyjum sem gættu þess, og smíðar úr því hring sem gæddur er töfrum. Í goðheimum hefur Wotan (Óðinn) ráðið tvo risa, Fasolt og Fafner (Fáfni), til að smíða sér ný heimkynni, Valhöll. Að launum hefur hann lofað að afhenda þeim mágkonu sína, Freia (Freyju), en vill nú helst hlífa henni við slíkri raun og hyggst greiða með gulli Niflungans í staðinn. Ásamt hinum kæna hálfguði Loge (Loka) rænir hann gullinu en í hefndarskyni leggur Alberich bölvun á hvern þann sem kallar fram seiðmagn hringsins. Óðinn hyggst sjálfur halda hringnum en þegar risarnir heimta hann á hann engra kosta völ. Að fáeinum augnablikum liðnum hefur Fáfnir drepið Fasolt, stolið hringnum og hlaupið á brott. Má þá öllum vera ljóst að ekki skuli vanmeta álög hringsins.

Nokkuð er um liðið þegar tjaldið rís í Valkyrjunni. Óðinn girnist enn hringinn og til að ná honum af Fáfni hefur hann einsett sér að skapa „frjálsa“ hetju – þ.e. mann sem sé ekki tengdur honum að nokkru leyti. Með þetta að augnamiði hefur hann feðrað tvíburana Siegmund (Sigmund) og Sieglinde og að auki fríðan flokk dætra, Valkyrjurnar. Fárviðri geisar þegar óperan hefst og Sigmundur leitar skjóls í húsi Sieglinde og manns hennar, Hundings. Þau Sieglinde fella hugi saman og eignast soninn Siegfried (Sigurð Fáfnisbana). Ein valkyrjan, Brünnhilde (Brynhildur), óhlýðnast föður sínum með því að liðsinna Sigmundi þar sem hann heyr einvígi við Hunding. Óðinn refsar henni með því að svæfa hana á fjallstindi sem umkringdur er vafurloga. Aðeins sönn hetja mun geta frelsað hana þaðan – ófæddur sonur þeirra Sigmundar og Sieglinde.

Hvergi notaði Wagner leiðarstef af þvílíku kappi sem í Niflungahringnum. Hér mynda þau allan efnivið tónverksins; öll tónlistin er úrvinnsla stefja sem umbreytast eftir því sem líður á verkið og öðlast táknræna merkingu. Þegar komið er að síðustu óperunni er tónlistin stöðug framrás stefja sem áður hafa heyrst og á hvert sína sögu. Allt frá frumflutningnum 1876 hafa stefjunum verið gefin hin ýmsu nöfn sem vísa til merkingarinnar sem Wagner ljær þeim í tónlistinni: „Bölvunarstefið“, „Rínargullið“, „Stef Sigurðar“ og þar fram eftir götunum.

 

Niflungahringurinn snýst um græðgi og völd, trygglyndi og svik. Jafnvel ástarsambönd söguhetjanna eru hönnuð af Wotan til þess eins að hann fái svalað fýsn sinni og eignist aftur hringinn, sem þó verður aldrei. Verkið hefur verið túlkað á ótal vegu og meðal þeirra sem lagt hafa sitt til málanna var írska skáldið George Bernard Shaw. Í ritinu The Perfect Wagnerite (Fullkomni Wagneristinn, 1898) túlkar hann Niflungahringinn sem táknsögu eða allegoríu um kúgun og óréttlæti í heimi kapítalismans. Wotan og ættmenni hans eru fulltrúar auðvalds sem reynir eftir mætti að halda í völd sín en ágirnd þeirra hefur hörmulegar afleiðingar fyrir heiminn allan. Þessi túlkun hefur orðið lífseig og varð til dæmis leikstjóranum Patrice Chéreau að innblæstri í frægri uppfærslu hans á verkinu í Bayreuth á aldarafmæli Hringsins árið 1976.

Árni Heimir Ingólfsson