EN

Robert Schumann: Sellókonsert

Robert Schumann (1810-1856) lifði ekki lengi en á stuttri ævi tókst honum að marka djúp spor í tónlistarsöguna og er nú talinn í hópi fremstu tónskálda rómantíska tímabilsins. Hann fæddist í Zwickau, yngstur fimm systkina. Schumann er fæddur sama ár og Chopin, ári á eftir Mendelssohn og þremur árum á undan Wagner. Hann nam lögfræði í öndverðu en sneri sér snemma að píanóinu og hugði á einleiksferil. Handameiðsl komu þó í veg fyrir frama á því sviði. Upp frá því starfaði Schumann sem tónskáld og mikilsvirtur tónlistargagnrýnandi. Mörg verkanna samdi hann einmitt fyrir eiginkonu sína, Clöru Schumann, sem var meðal fremstu píanóleikara á sinni tíð.

Eins og með flesta einleikskonserta sína samdi Schumann sellókonsertinn með ákveðinn einleikara í huga. Að þessu sinni var það sellóleikarinn Robert Emil Bockmühl sem varð fyrir valinu en hann var í vinfengi við Schumann. Konsertinn samdi tónskáldið skömmu eftir að þau hjónin fluttust búferlum til Düsseldorf og það á býsna skömmum tíma, það er að segja frá 10. til 24. október 1850, eða á einungis tveimur vikum. Konsertinn var þó ekki frumfluttur fyrr en um áratug síðar eða hinn 23. apríl 1860, fjórum árum eftir andlát tónskáldsins. Einleikari þá var Ludwig Ebert.

Reyndar var það svo að Schumann bauð að minnsta kosti tveimur útgefendum konsertinn til útgáfu en hvorugur sýndi verkinu áhuga, þrátt fyrir að lítið hefði verið skrifað fyrir sellóið sem einleikshljóðfæri með hjómsveit. Þriðji útgefandinn, Breitkopf & Härtel, beit hins vegar á agnið en ekki fyrr en Schumann hafði lýst verkinu sem „glaðværu“ og „upplífgandi“ – sem er ansi langt seilst, enda fyrst og fremst um að ræða ljóðrænt og tilfinningaþrungið verk. Schumann glímdi á þessum tíma við mikinn heilsubrest en hann hafði lengi þjást af geðhvörfum. Árið 1854 var hann farinn að heyra raddir og fleygði sér á endanum á ána Rín. Þaðan var hann dreginn á land og færður á geðsjúkrahús nærri Bonn þar sem lést rúmum tveimur árum síðar. Eitt síðustu verka Schumanns áður en hann missti endanlega heilsuna var að leiðrétta prófarkir af sellókonsertinum.

Konsertinn er í þremur samhangandi köflum, þeim fyrsta í a-moll sem tónskáldið vill ekki að sé leikinn of hratt (Nicht zu Schnell). Hann er sónötuformi og við heyrum stefin tvö kynnt til sögunnar sem tónskáldið vinnur svo smám saman með. Kaflinn er afar lýrískur og að mörgu leyti tilfinningaþrunginn, rétt eins og venja var meðal rómantískra tónskálda. Schumann leiðir okkur svo yfir í hægan annan kaflann (Langsam) sem einkennist af syngjandi stefi í F-dúr. Þar heyrum við meðal annars Clöru-stefið, fallandi fimmund, sem skýtur upp kollinum hér og þar í verkinu. Aftur erum við svo leidd yfir í þriðja kaflann (Sehr lebhaft) sem er í rondó-formi og við heyrum aðalstefið ítrekað á nokkrum stöðum. Kaflinn hefst í a-moll og endar í hinni björtu tóntegund, A-dúr. Það eru nokkur mótíf sem skjóta upp kollinum hér og þar í konsertinum, þar á meðal upphafshljómarnir þrír (leiknir af tréblásurum) og Clöru-stefið.