EN

Samuel Barber: Adagio fyrir strengi

Samuel Barber (1910–1981) er eitt fárra tónskálda sem var söngvari að mennt. Tónsmíðastíll hans þótti auðþekkjanlegur; nútímalegur en aldrei tilraunakenndur. Barber var hefðbundnastur amerískra tónskálda á sínum tíma, tónverk hans voru áheyrileg og hann þótti næmur fyrir hinu lagræna. Hann var dáður og naut mikillar velgengni og var sannkallað uppáhald tónleikagesta sem kunnu vel að meta blæbrigðaríka tónlist hans. Barber tilheyrði engum skóla, klíku eða samtökum og þó hann hafi ekki verið sporgöngumaður sem slíkur þá var hann mikill áhrifamaður í tónlistarlífi vestanhafs. 

Árið 1936, þegar Barber var 26 ára gamall, samdi hann strengjakvartett sem var fluttur ári síðar í Róm. Að tilstuðlan ítalska hljómsveitarstjórans Arturos Toscanini var annar þáttur kvartettsins, Adagio, útsettur fyrir strengjahljómsveit og frumfluttur undir stjórn hans ásamt NBCsinfóníuhljómsveitinni 1938. Tónsmíðin sem flæðir áfram án togstreitu í tilfinningaríkum samhljómi sorgar og ástríðu lagði heimsbyggðina að fótum Barbers. Verkið öðlaðist strax einstakan stall í bandarísku samfélagi og víðar og er oftar en ekki leikið á viðkvæmum stundum þegar orð eru best færð í tónmál. Það kom Barber sjálfum á óvart. 

Barber var handhafi amerísku Prix de Rome-verðlaunanna og hlaut hin virtu Pulitzer-verðlaun í tvígang: Fyrst 1958 fyrir óperuna Vanessu og síðar píanókonsertinn (1962) sem blés í glæður alþjóðlegrar viðurkenningar. Við vígslu Metropolitan-óperunnar í Lincoln Center 1966 var óperan hans Antony and Cleopatra flutt. Verkið féll í grýttan jarðveg og tók Barber sér hlé frá tónsmíðum en sendi síðar frá sér The Lovers and Fadograph of a Yestern Scene (1971) og Third Essay for Orchestra sem var frumflutt 1980. Við lát Barbers flutti Sinfóníuhljómsveit San Francisco undir stjórn Erichs Leinsdorf, Adagio fyrir strengi, á áskriftartónleikum sínum í janúar 1981 til minningar um tónskáldið sem lést viku fyrr.