EN

Robert Schumann: Fiðlukonsert

Ungverski fiðluleikarinn Joseph Joachim var aðeins 22ja ára gamall þegar hann bað vin sinn og læriföður, Robert Schumann (1810–1856), að semja fyrir sig fiðlukonsert. Þetta gerðist sumarið 1853 og var Joachim þá þegar orðinn þekkt nafn í tónlistarheiminum. Schumann brást snarlega við og samdi ekki aðeins konsertinn í d-moll, heldur einnig fantasíu í C-dúr fyrir fiðlu og hljómsveit stuttu síðar á tæpum þremur vikum. Joachim tók fantasíunni fagnandi og flutti hana margoft á ferli sínum en konsertinn spilaði hann aldrei. Ekki nóg með það, heldur kom hann í veg fyrir að verkið yrði gefið út með þeim rökum að - „konsertinn stæðist ekki samanburð við svo mörg af dýrlegum sköpunarverkum meistarans“. Var þessi ákvörðun studd af Clöru Schumann og Johannesi Brahms, og í heildarútgáfu á verkum Schumanns eftir lát hans, er konsertinn er ekki skráður.

Nú víkur sögunni til London. Þar bjuggu á fyrri hluta 20. aldar systurnar Adila og Jelly d'Arányi sem báðar voru atvinnufiðluleikarar. Hæfileikana áttu þær ekki langt að sækja því Joseph Joachim var afabróðir þeirra. Skrifaði Béla Bartók fiðlusónöturnar tvær fyrir Jelly og henni tileinkaði Ravel einnig glæsiverkið Tzigane.

Jelly hafði mikinn áhuga á dulspeki (líkt og Schumann...) og á andaglasfundi árið 1933 fékk hún boð að handan um að finna og flytja óútgefið verk eftir Schumann. Í kjölfarið fannst konsertinn, en líka skilyrði Joachims um að ekki mætti flytja hann fyrr en að liðnum 100 árum frá dauða tónskáldsins. Nú kröfðust Þjóðverjar í krafti höfundarréttar að konsertinn yrði fluttur af heimamönnum. Var hann frumfluttur af fiðluleikaranum Georg Kulenkampff og Berlínarfílharmóníunni í nóvemberlok 1937, 19 árum áður en fyrrnefndur frestur rann út. Yehudi Menuhin spilaði konsertinn svo í New York mánuði síðar og Jelly d'Arányi í London í febrúar árið eftir.

Síðan þá hefur fiðlukonsert Schumanns æ oftar hljómað í tónleikasölum en best er að láta áheyrendum eftir að dæma um hughrifin sem konsertinn vekur hjá þeim.