EN

Sebastian Fagerlund: Drifts

Sebastian Fagerlund (f. 1972) er eitt fremsta tónskáld Finna af sinni kynslóð. Hann stundaði fiðlunám við tónlistarháskólann í Turku áður en hann innritaðist í tónsmíðanám við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki. Þaðan útskrifaðist hann árið 2004 og sló í gegn tveimur árum síðar með klarinettkonsert sínum. Með hljómsveitarverkinu Ignite vann Fagerlund til Teosto-verðlaunanna árið 2011 en þau eru ein helstu tónlistarverðlaun Finna, veitt fyrir verk sem þykja bera með sér nýjabrum og frumleika. Tónsmíðum Fagerlunds hefur verið lýst svo, að þær einkennist af rytmískum púlsi, útleitinni hreyfingu og breiðum dúandi hljómum. Stundum er allt þrennt í gangi í senn, stundum er ein víddin ráðandi en alltaf einkennast verkin af krafti og fágaðri framvindu. Það er ljóst hvert stefnir: Áfram.

Fagerlund er þekktastur fyrir konserta sína og hljómsveitarverk en á verkalista hans eru einnig fjölmörg einleiks- og kammerverk. Þá hefur hann samið tvær óperur, kammeróperuna Döbeln (2008–2009) og Höstsonaten, sem frumsýnd var í Finnsku þjóðaróperunni í Helsinki í september síðastliðnum. Óperan er byggð á samnefndri kvikmynd Ingmars Bergman og skartaði mezzosópransöngkonunni Anne Sofie von Otter í aðalhlutverkinu.

Drifts var samið að beiðni Sinfóníuhljómsveitar finnska útvarpsins, Sinfóníuhljómsveitarinnar í Gautaborg og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Galisíu á Spáni. Það var finnska útvarpshljómsveitin sem frumflutti það í maí í fyrra, undir stjórn Hannu Lintu.

Fagerlund hefur verið listrænn stjórnandi kammertónlistarhátíðarinnar RUSK í Jakobstad í Finnlandi frá 2013 og veturinn 2016–17 var hann staðartónskáld Concertgebouw tónlistarhússins í Amsterdam.