EN

Sergei Prokofíev: Rómeó og Júlía, ballettsvítur

Þegar Sergei Prokofíev (1891–1953) sneri aftur til Sovétríkjanna um miðjan fjórða áratuginn eftir átján ára dvöl í París og Bandaríkjunum gáfu yfirvöld honum undir fótinn með að nýjum verkum hans yrði vel tekið og þau flutt um leið og þau væru fullgerð. Raunin varð þó allt önnur, eins og hann komst að fyrr en varði. Það var Kirovleikhúsið sem falaðist eftir ballett frá Prokofíev 1934, en þegar nýir yfirmenn tóku við skiptu þeir um skoðun og að lokum var það Bolsjoj-ballettinn í Moskvu sem pantaði tónlistina. Þegar yfirmenn ballettsins heyrðu hið nýja verk Prokofíevs við Rómeó og Júlíu kom annað hljóð í strokkinn; þeim þótti tónlistin „ekki danshæf“ og riftu samningnum. Prokofíev óttaðist að ef ballettinn kæmist ekki á svið myndi tónlistin aldrei ná flugi, og því setti hann saman tvær konsertsvítur op. 64 a/b, og síðar þá þriðju op. 101, sem hafa notið mikilla vinsælda æ síðan. Ekki varð útsetning hans á tíu þáttum fyrir einleikspíanó heldur til að draga úr vinsældunum. 

Ballettinn komst fyrst á svið í Brno í Tékklandi í desember 1938, en rúmu ári síðar í Leníngrad. Tregða sovéskra ballettstjóra til að taka verkið til sýninga er illskiljanleg, enda fellur tónlistin eins og flís við rass að yfirlýstum markmiðum sovéskra yfirvalda sem og Prokofíevs sjálfs. Eitt fyrsta verk Prokofíevs eftir heimkomuna til Sovétríkjanna var að gera grein fyrir fagurfræði sinni í grein í dagblaðinu Isvestíja: „Ég tel að okkur vanti fyrst og fremst það sem mætti kalla „létt-þunga“ eða „þung-létta“ tónlist. Hún þyrfti fyrst og fremst að vera lagræn og stefin ættu að vera einföld og skýr, án þess þó að verða endurtekningasöm eða klisjukennd. Við þurfum ekki gamla einfaldleikann, heldur nýjan einfaldleika.“ Síðar sagði Prokofíev um ballettónlistina við Rómeó og Júlíu að hann vonaðist til að snerta hjörtu hlustenda með tónlist sinni. „Ef fólki tekst ekki að finna laglínur og tilfinningu í þessu verki mun ég taka það mjög nærri mér – en ég er raunar fullviss um hið gagnstæða.“