EN

Sergej Prokofíev: Fiðlusónata nr. 1 í f-moll

Sergej Prokofíev (1891–1953) var í hópi rússneskra tónskálda sem flýðu Sovétríkin eftir byltinguna 1917. Hann dvaldi í Bandaríkjunum og í Þýskalandi áður en hann settist að í París. Prokofíev var virtur og eftirsóttur píanóleikari og ferðaðist víða sem slíkur. Hann leit þó fyrst og fremst á sig sem tónskáld og gramdist hversu lítinn tíma hann hafði til tónsmíða.

Uppúr 1930 þegar syrta tók í álinn í kjölfar heimskreppunnar fór Prokofíev að líta hýru auga til heimalandsins og kom þar hvoru tveggja til heimþrá og tóverkapantanir frá Moskvu og Leningrad [St. Pétursborg]. Fluttist fjölskyldan endanlega til Moskvu árið 1936.

Á næstu tveimur árum mátti Prokofíev horfa uppá marga vini sína verða fyrir barðinu á ógnarstjórn Stalíns og í skugga þessara atburða byrjaði hann að hann að semja fyrstu fiðlusónötu sína í f-moll árið 1938. Eftir að hafa lokið við 2. þáttinn lagði hann verkið til hliðar og einbeitti sér að tónlistinni við kvikmynd Eisensteins um Alexander Nevsky. Fimm ár liðu þangað til að að hann reyndi sig aftur við sónötuna en núna vék hún vék fyrir fimmtu sinfóníunni. Árið 1943 samdi Prokofíev síðan flautusónötuna í D-dúr og umritaði hana fyrir fiðlu árið eftir að undirlagi vinar síns, fiðluleikarans Davids Oistrakh. Fyrir hvatningu hans og hjálp lauk Prokofíev loks við f-moll sónötuna sumarið 1946 og tileinkaði hana Oistrakh sem frumflutti hana þá um haustið.

Oistrakh minntist þess síðar að tónskáldið hefði sagt að hröðu skalarnir í 1. og 4. kaflanum ættu að hljóma eins og þytur vinds í kirkjugarði og bætti við: „Eftir athugasemd sem þessa fékk allt yfirbragð sónötunnar aðra og dýpri merkingu“. Yfirbragð sónötunnar er vissulega dökkt og nærtækt að ímynda sér að hún sé samin í minningu vina Prokofíevs og annarra þeirra fjölmörgu sem dauðinn tók á þessu dapra tímabili veraldarsögunnar.

Við jarðarför Sergejs Prokofíev léku David Oistrakh og Samuil Feinberg fyrsta og þriðja þátt f-moll sónötunnar.