EN

Sergej Rakhmanínov: Píanókonsert nr. 2

 

Árið 1897 hafði Sergej Rakhmanínov (1873–1943) heiminn í hendi sér. Hann var tuttugu og fjögurra ára gamall og á þeim sex árum sem liðin voru frá því að hann brautskráðist með láði frá Tónlistarháskólanum í Sankti Pétursborg hafði hann getið sér orð sem einn efnilegasti ungi tónlistarmaður Rússlands, hvort sem var sem tónskáld eða píanóleikari. En í mars þetta sama ár var fyrsta sinfónía hans var frumflutt í Moskvu og tónleikarnir tókust vægast sagt hörmulega. Hljómsveitin var illa æfð og sagt var að hljómsveitarstjórinn, tónskáldið Alexander Glazúnov, hefði verið kófdrukkinn þegar hann steig á pallinn. Rakhmanínov var í tónleikasalnum en laumaðist á brott áður en verkið var á enda. Gagnrýnendur létu skömmunum rigna yfir varnarlausan höfundinn; tónskáldið César Cui gaf verkinu falleinkunn og sagði það helst hafa líkst „prógrammsinfóníu um tíu plágur Egyptalands“.

Velgengni Rakhmanínovs fram til þessa gerði skellinn enn harkalegri. Nú lagðist hann í þunglyndi, kenndi sjálfum sér um allt sem úrskeiðis hafði farið og gaf tónsmíðar upp á bátinn. Vinir Rakhmanínovs áttu bágt með að horfa upp á þrautagöngu hans og þegar öll sund virtust lokuð pöntuðu þeir handa honum tíma hjá taugasálfræðingnum Nikolai Dahl, sem var sérfræðingur í dáleiðslu. Undir handleiðslu læknisins tók Rakhmanínov skjótum framförum. Hann átti hægara með svefn, matarlystin jókst, en það sem mest var um vert – hann fékk aftur löngun til að semja tónlist. Efst í huga hans var að semja píanókonsert og hann rifjaði upp síðar að Dahl hafi endurtekið sömu setninguna aftur og aftur í meðferðinni: „Nú munt þú byrja að semja konsertinn þinn ... þú munt semja hratt og örugglega ... konsertinn verður meistaraverk.“ „Þetta var alltaf sama orðarunan,“ sagði tónskáldið síðar. „Og þótt það hljómi ótrúlega varð hún í raun til þess að hjálpa mér af stað. Ég hóf að semja konsertinn strax þetta sama sumar – hugmyndirnar bókstaflega hrönnuðust upp.“

Í desember 1900 voru annar og þriðji þáttur konsertsins frumfluttir í Moskvu, við mikinn fögnuð áheyrenda, og vorið 1901 var fyrsti þátturinn einnig fullgerður. Rakhmanínov frumflutti konsertinn í heild í nóvember sama ár og varla kemur á óvart að hann skuli hafa tileinkað verkið dr. Dahl. Tónlistin er kraftmikil og ólgandi, en um leið tregafull og angurvær. Hafi Rakhmanínov einhvern tímann tekist að sameina alla þessa eiginleika í hárréttum hlutföllum hlýtur það að vera í þessu verki, því konsertinn er vinsælastur þeirra fjögurra sem hann samdi um ævina og að líkindum mest leikni píanókonsert 20. aldarinnar.

Þó gætir Rakhmanínov þess að gefa ekki of mikið upp strax í upphafi. Konsertinn hefst ofurveikt, á brotnum hljómum í píanóinu sem hljóma eins og upphitun fyrir það sem á eftir kemur. Þegar tregablandin laglínan heyrist fyrst er hún leikin af fiðlum meðan píanistinn bregður sér í hlutverk undirleikarans. Brátt kemst þó á jafnræði með hljómsveit og sólista sem ýmist leikur kraftmikla hljóma eða undurfagrar laglínur með safaríkum undirleik. Annar kaflinn er blíður og ljóðrænn; hann hefst með stefi tréblásara sem síðan er þróað áfram í píanói og strengjum. Í lokaþættinum sprettur einleikarinn fram með miklum tónstigahlaupum sem smám saman taka á sig mynd og verða að stefi. Hendingar og stef þjóta hjá í þessum tápmikla kafla; sum staldra við lengur en önnur og jafnvel tilfinningaþrungin angurværð annars þáttar snýr aftur þegar minnst varir.