EN

Sergej Rakhmanínov: Píanókonsert nr. 3

Konsert fyrir píanó og hljómsveit í þremur þáttum í d moll, op. 30.

Þegar Sergei Rakhmaninoff (1873–1943) setti tvístrikið aftan við þriðja píanókonsert sinn árið 1909 stóð hann á hátindi frægðar sinnar. Fáir snerust honum snúning við hljómborðið en tónsmíðarnar áttu huga hans í æ meiri mæli. Þetta voru tímar tómarúms í rússneskri tónsköpun og hægur leikur fyrir hæfileikamann að ná athygli með verkum sínum. Nestor rússneskra tónskálda, Nikolaj Rimskíj-Korsakoff, hafði andast árinu áður, og enn voru nokkur ár þar til þeir Stravinskíj og Prokofíev vöktu heimsathygli. Á þessu millibilsskeiði taldist Rakhmaninoff til helstu tónskálda álfunnar í eina skiptið á ferli sínum. Þegar leið á annan áratug 20. aldarinnar viku tónsmíðarnar smám saman fyrir píanóleiknum. Konsertferðalög voru öruggari leið til að sjá fyrir fjölskyldu, og tónsmíðastíll hans féll sífellt verr að ríkjandi straumum og stefnum. Þegar Rakhmaninoff lést árið 1943 litu margir á tónlist hans sem stórfenglega tímaskekkju, melankólskt afturhvarf til kraumandi síðrómantíkur í heimi þar sem allt hverfðist um andstæða póla nýklassíkur og raðtækni – Stravinskíjs og Schönbergs.

Rakhmaninoff samdi konsertinn fyrir fyrstu tónleikaferð sína til Bandaríkjanna haustið 1909. Ferðin var í undirbúningi í nokkur ár og ýmis vandamál komu upp í samningagerð, en þegar síðustu hindrunum hafði verið rutt úr vegi í júlí 1909 var píanistinn langt kominn með konsert sem átti að vera glæsistykki ferðalagsins. Hann lauk við nýja verkið 23. september og sigldi vestur um haf skömmu síðar. Það var að mörgu að huga síðustu vikurnar áður en lagt var úr höfn og tími til æfinga af skornum skammti, svo Rakhmaninoff hafði strengjalaust hljómborð meðferðis á siglingunni til að geta æft einleikspartinn. Frumflutningurinn fór fram í nóvemberlok með New York Symphony Orchestra undir stjórn Walters Damrosch, og ekki liðu nema tveir mánuðir þangað til hann lék konsertinn aftur á sömu slóðum, þá með hljómsveit keppinautarins – Fílharmóníuhljómsveitinni í New York í Carnegie Hall undir stjórn Gustavs Mahler. 

Þriðji píanókonsertinn hefur löngum verið talinn gera meiri tæknilegar kröfur en nokkur annar píanókonsert í rómantískum stíl. Þetta skrifast bæði á hnausþykkan píanópartinn sem og lengd verksins, því að þrír stundarfjórðungar af slíkri spilamennsku hljóta að teljast jafngildi maraþonhlaups og gott betur. Þótt viðtökurnar hafi almennt verið góðar í Ameríkuferðinni 1909–10 leið allnokkur tími þar til konsertinn festi sig í sessi. Sergei Prokofíev heyrði konsertinn fluttan í Moskvu í fyrsta sinn og kvað upp þann dóm að hann væri „þurr, erfiður, og óaðlaðandi“. Það var ekki fyrr en Vladimir Horowitz tók konsertinn á efnisskrá sína um 1930 sem hann náði verulegum vinsældum, en þó var hann iðulega fluttur í styttu formi allt fram á sjöunda áratug síðustu aldar. 

„Það skrifaði sig sjálft,“ sagði höfundurinn um upphafsstefið fræga, sem síðar var bent á að hefur ákveðin líkindi með messusöng rétttrúnaðarkirkjunnar. Byrjunin er látlaus og stefið hljómar einradda í áttundum í píanóinu, en ekki líður á löngu þar til Rakhmaninoff hrekkur í virtúósagírinn. Kadensa fyrsta þáttar er óvenju stórbrotin og dramatísk. Raunar samdi Rakhmaninoff tvær kadensur og lét einleikaranum eftir að velja úr. Sú fyrri er öllu hógværari, með þynnri áferð í upphafi þótt hún vaxi að styrk og þrótti eftir því sem á líður. Víkingur leikur seinni kadensuna sem er tilþrifamikil flugeldasýning allt frá fyrsta takti. 

Hægi kaflinn hefst á undurblíðu stefi sem er vel þegin hvíld frá hamagangi fyrsta þáttar. Jafnvel hér kemst tónlistin þó á eftirminnilegt flug, ekki síst í valsinum undir lok kaflans. Gömul stef skjóta upp kolli í lokaþættinum sem verður stöðugt hraðari eftir því sem á líður, og kastar þar fyrst tólfunum hvað varðar ljóshraðahlaup og almenna fingrafimi píanistans.