EN

Sergej Rakhmanínov: Sinfónía nr. 2

Sergej Vasiljevitsj Rakhmanínov (1873–1943) fæddist í Starorusskíj­héraðinu nálægt Novgorod í Norður­Rússlandi. Tónlistarhæfileikar hans komu fljótt í ljós og réði móðir hans einkakennara til að leiðbeina honum í píanóleik. Árið 1882 flutti fjölskyldan til Sankti Pétursborgar þar sem drengurinn fékk styrk til náms við tónlistarháskóla borgarinnar. Tólf ára gamall var Rakhmanínov sendur til Moskvu þar sem hann gekkst undir strangt tónlistarnám undir handleiðslu Nikolajs Zverev.

Í stórborginni sótti Rakhmanínov tónlistarviðburði og kynntist mörgum af helstu tónlistarmönnum landsins, þar á meðal Anton Rubinstein og Pjotr Tsjajkovskíj. Vorið 1892 lauk hann prófi í tónsmíðum frá Tónlistarháskólanum í Moskvu og hlaut hæstu einkunn og æðstu viðurkenningu skólans sem aðeins tveimur öðrum nemendum hafði áður fallið í skaut.

Rakhmanínovs beið annasamur ferill þar sem hann deildi kröftum sínum milli píanósins, hljómsveitarstjórapallsins og tónsmíðanna. Eftir að fyrsta sinfónía hans galt afhroð við frum­ flutninginn í mars 1897 lagðist Rakhmanínov í þunglyndi sem lamaði sköpunarmátt hans í þrjú ár. Aldamótaárið 1900 leitaði hann sér loks hjálpar og eftir fjögurra mánaða dáleiðslumeðferð hjá geðlækni kom andinn yfir hann. Árið eftir frumflutti hann píanókonsertinn nr. 2 og á næstu misserum samdi hann svo píanóverk, sönglög, sellósónötu og tvær óperur. Haustið 1906 dró Rakhmanínov sig í hlé og flutti með fjölskyldu sinni til Dresden með smíði nýrrar hljómkviðu, aðra sinfóníuna, að markmiði. Henni lauk hann sumarið eftir og stjórnaði sjálfur frumflutningnum í Sankti Pétursborg 26. janúar 1908.

Önnur sinfónía Rakhmanínovs er ægifagur, síðrómantískur tónbálkur með stórum ávölum línum í tilfinningaríku og oft angurværu tónmálinu. Eru sinfónían og annar píanókonsertinn vinsælustu hljómsveitarverk þessa merka rússneska tónlistar­ manns.

Rakhmanínov­fjölskyldan flúði land eftir byltinguna í Rúss­ landi árið 1917 og settist að lokum að í Bandaríkjunum. Þar gerði Rakhmanínov garðinn frægan sem hljómsveitarstjóri og píanóvirtúós en tónsmíðarnar sátu á hakanum. Af þeim 45 verkum sem hann samdi um ævina urðu aðeins þau 6 síðustu til í nýja heimalandinu.