EN

Sergej Rakhmanínov: Sinfónískir dansar

Auk tónsmíðanna var Sergej Rakhmanínov (1873–1943) einn mesti píanóleikari 20. aldar. Leikur hans sameinaði alla helstu kosti rússneska skólans: mýkt, kraft, snerpu, og óvenju safaríkan tón. Auk þess hafði Rakhmanínov gríðarstórar krumlur sem gerðu honum kleift að leika næstum hvað sem var, og þá ekki síst eigin píanómúsík sem var sérsniðin að fingrum hans. En þótt tónverk Rakhmanínovs nytu vinsælda var aldrei á vísan að róa; tónsmíðastíll hans var álitinn gamaldags, tímaskekkja. Eftir sovésku byltinguna árið 1917 settist hann að í Bandaríkjunum og sá fjölskyldu sinni farborða með tónleikahaldi. Því gafst lítið næði til tónsmíða nema yfir sumarmánuðina. Hann óttaðist líka að sú tónlist sem hann vildi semja þætti ekki lengur boðleg, og kvaðst vera eins og „draugur sem ráfar um í framandi heimi“.

Um miðjan fjórða áratuginn hafði Rakhmanínov svo að segja lagt tónsmíðar á hilluna. Nýjustu verk hans, fjórði píanókonsertinn og Tilbrigði um stef eftir Corelli, höfðu hlotið dræmar viðtökur áheyrenda. Rapsódía um stef eftir Paganini sló reyndar strax í gegn og er enn eitt af vinsælustu verkum hans, en tveimur árum síðar kom þriðja sinfónían og var henni fálega tekið. Aftur hafði Rakhmanínov ástæðu til að efast um að hann væri á réttri braut sem tónskáld. Frá 1937 til 1939 samdi hann ekki eitt einasta verk, en sumarið 1940 dró til tíðinda. Þau hjónin höfðu tekið á leigu hús á Long Island nálægt New York-borg; meðal nágranna voru Vladimir Horowitz og Wanda eiginkona hans, dóttir Toscaninis. Í ágústlok hafði Rakhmanínov lokið við nýtt hljómsveitarverk fyrir Fíladelfíu-hljómsveitina, sem þá þótti ein fremsta hljómsveit Bandaríkjanna, og aðalstjórnanda hennar, Eugene Ormandy. Með þessari sveit hafði Rakhmanínov leikið margoft, hann hljóðritaði alla píanókonserta sína með henni og þetta var jafnframt eina hljómsveitin sem hann stjórnaði sjálfur á upptökum.

Sinfónískir dansar voru síðasta tónsmíðin sem Rakhmanínov lauk við. Hann veiktist af krabbameini skömmu síðar en hélt áfram tónleikahaldi á meðan kraftar leyfðu; haustið 1942 aflýsti hann tónleikaferð um Bandaríkin og fáeinum vikum síðar var hann allur. Tónlistin ber síðrómantískan blæ og þótt dönsunum væri misjafnlega tekið í upphafi leikur enginn vafi á því að þeir eru meðal þess besta sem Rakhmanínov samdi fyrir hljómsveit um ævina. Útsetningin er bæði meistaraleg og á köflum óvenjuleg – hann notar meðal annars alt-saxófón sem gefur fyrsta þættinum óvenju melankólskan blæ. Eins og fleiri píanistatónskáld fékk Rakhmanínov holl ráð frá fiðluleikara varðandi praktíska hluti og fullvissaði sig um að það sem hann hefði samið væri yfirleitt framkvæmanlegt á strengjahljóðfæri. Í þessu tilfelli var það enginn annar en Fritz Kreisler sem var vini sínum innan handar og lagði nýja verkinu til bogastrok.

Fyrsti þáttur ber óvenjulega yfirskrift – Non allegro – en þá ber að hafa í huga að „Allegro“ getur þýtt bæði „hratt“ og „glaðlega“; líklega átti tónskáldið við síðari skilgreininguna, sumsé „Ekki glaðlega“. Tónlistin er með marsa-ívafi, stundum hádramatísk en með hægum miðkafla þar sem bregður fyrir ljóðrænni stefjum. Annar þáttur er vals með fremur dökku yfirbragði. Í þriðja þætti, sem er hraður og glæsilegur, bregður fyrir einu af eftirlætisstefjum höfundarins. Dies Irae – „Dagur reiði, dagur bræði“ – er hluti af sálumessu kaþólskra þar sem brugðið er upp nöturlegri mynd af hinsta degi. Þetta forna stef hafði Rakhmanínov notað víða í verkum sínum, m.a. í Rapsódíu um stef eftir Paganini og sinfóníunni nr. 2, og hér skapar hann úr því kraftmikinn og allt að því djöfullegan dans.

Kannski hefur Rakhmanínov grunað að Sinfónísku dansarnir yrðu svanasöngur sinn, síðasti ópus á glæstum en stopulum ferli hjáverkatónskálds. Á eina af lokasíðum verksins ritaði hann í handrit sitt orðið „Alliluya“ og á sama stað vísar tónlistin í Náttsöngva, áhrifamikið trúarlegt kórverk sem hann hafði samið næstum þremur áratugum fyrr. Það er táknrænt fyrir hinn aldna Rakhmanínov að hann skuli í síðustu tónsmíð sinni kveðja með þakkargjörð, með því að breyta dómsdagssöngnum í fagnaðar- og upprisusálm úr eigin höfundarverki.