EN

Sofia Gubaidulina: Offertorium

Sofia Gubaidulina (f. 1931) var komin á sextugsaldur þegar hún tók að vekja verulega athygli á Vesturlöndum. Sovéskum yfirvöldum þótti tónlist hennar fullróttæk og sérkennilega samansett, með frjálsum spunaköflum, óvenjulegum hljóðfærasamsetningum og trúarlegum undirtóni. Það var ekki fyrr en á níunda áratug síðustu aldar sem tónlist hennar fór að heyrast að ráði í Vestur-Evrópu, og fiðlukonsertinn sem hljómar í kvöld átti stóran þátt í að breiða út orðspor hennar. Gubaidulina er fædd í Kristópól í Tatarlýðveldinu en býr nú í útjaðri Hamborgar. Hún stundaði tónsmíðanám við Tónlistarháskólann í Moskvu hjá Nikolaj Pelko, aðstoðarmanni Shostakovitsj. Á lokaprófi sínu fékk hún ákúrur frá prófdómurum sem þótti hún hafa snúið af hinni „réttu braut“ í tónlistinni, en hún var vart stigin út úr kennslustofunni þegar Shostakovitsj sjálfur vatt sér að henni á ganginum og hvíslaði: „Haltu þig á vitlausu brautinni!“

Gubaidulina hefur forðast tískustrauma 20. aldarinnar. Greina má undirliggjandi mystík í verkum hennar þótt þau séu af öðrum toga en til dæmis tónsmíðar Arvo Pärt eða Giya Kancheli. Gubaidulina segist trúa á tjáningarmátt tónanna, og að tónlist sé fyrst og fremst ætlað andlegt hlutverk. Tónlist hennar er skýr og afgerandi í framsetningu, áferðin er lifandi og litrík. Í tónlist henni mætast hið andlega og hið veraldlega, kyrrlát trúartónlist annars vegar og kröfuhörð glæsitilþrif hins vegar. 

Gubaidulina samdi Offertorium árið 1980 og tileinkaði lettneska fiðluleikaranum Gidon Kremer sem verið hefur ötull flytjandi verka hennar um áratuga skeið. Útgangspunktur er hið svokallaða konungsstef, Tema Regium, úr Tónafórn J. S. Bachs, sem hann samdi 1747 til heiðurs Friðriki mikla Prússakonungi um stef sem konungur er sagður hafa látið Bach í té. Þegar stefið heyrist í upphafi Offertorium er því skipt á milli fimm blásturshljóðfæra, sem sum leika ekki nema einn tón áður en næsti spilari tekur við. Austurríska tónskáldið Anton Webern stundaði músíkboðhlaup af þessu tagi í hljómsveitarverkum sínum og kallaði Klangfarbenmelodie; áherslan er ekki á laglínuna sem röð tóna einvörðungu, heldur sem samspil tónhæðar, litar, áferðar og styrkleika. Stefinu lýkur ekki á þann hátt sem búast má við. Einmitt þar sem lokatónninn ætti að hljóma tekur einleikarinn aðra stefnu og fer á flug. Fyrsti hluti konsertsins samanstendur af eins konar tilbrigðum um konungsstefið, sem fer smækkandi eftir því sem á líður; Gubaidulina „fórnar“ stefinu með því að klípa framan og aftan af því í hvert sinn sem það hljómar.

Miðhluti verksins er frjálsari í formi og hefst á mikilli fiðlukadensu. Í síðasta hlutanum raðar Gubaidulina stefinu aftur saman, nótu fyrir nótu en í öfugri röð. Undir lokin sameinast hljómsveit og einleikari í upphafinni tónlist sem minnir á rússneskan kirkjusöng, og í lokatöktunum mætast upphaf og endir í einum punkti: einleiksfiðlan leikur stef Bachs enn einu sinni, en nú frá síðasta tóni til hins fyrsta.