EN

Sofia Gubaidulina: Sieben Worte

Sofia Gubaidulina (f. 1931) er eitt merkasta tónskáld samtímans og fagnaði níræðisafmæli sínu í október síðastliðnum. Hún fæddist í Kristópól í Tatarlýðveldinu, starfaði lengi í Moskvu en hefur verið búsett í Þýskalandi síðan 1992. Hún stundaði tónsmíðanám við Tónlistarháskólann í Moskvu hjá Nikolaj Pelko, aðstoðarmanni Shostakovitsj. Á lokaprófi sínu fékk hún ákúrur frá prófdómurum sem þótti hún hafa snúið af hinni „réttu braut“ í tónlistinni, en hún var vart stigin út úr kennslustofunni þegar Shostakovitsj sjálfur vatt sér að henni á ganginum og hvíslaði: „Haltu þig á röngu brautinni!“

Gubaidulina hefur forðast helstu tískustrauma 20. aldarinnar í verkum sínum. Hún segist trúa á tjáningarmátt tónanna og að tónlistinni sé fyrst og fremst ætlað andlegt hlutverk. Verk hennar eru skýr og afgerandi í framsetningu, áferðin lifandi og litrík. Í tónlist hennar mætast hið andlega og hið veraldlega, kyrrlát tilbeiðsla annars vegar og krefjandi glæsitilþrif hins vegar. Sovéskum yfirvöldum þótti tónlist Gubaidulinu helst til róttæk, enda koma oft fyrir í verkum hennar frjálsir spunakaflar og miklar ómstríður, auk þess sem trúarlegur undirtónn er víða ráðandi og slíkt samræmdist ekki stefnu stjórnvalda á þeirri tíð.

Gubaidulina samdi Sieben Worte (Sjö orð) árið 1982 og var verkið frumflutt í Moskvu sama ár. Þar var þó ekki minnst orði á trúarlegt inntak verksins. Í verkinu sækir Gubaidulina innblástur í „sjö orð“ Krists á krossinum, rétt eins og ýmis eldri tónskáld sögunnar hafa gert, til dæmis Heinrich Schütz á barokktímanum, Joseph Haydn á átjándu öld og César Franck á þeirri nítjándu.

Sjálf segir Gubaidulina að vitaskuld sé ekki hægt að lýsa biblíutextanum í verki fyrir hljóðfæri eingöngu, en að hún hafi viljað túlka inntakið með sínum hætti. Einleikshljóðfærin tvö, selló og bajan eða takkaharmóníka, eru mjög í forgrunni í verkinu og bera jafnvel uppi heila þætti þess. Þeim er gefið stefjaefni sem hefur trúarlega skírskotun – til dæmis glissandó þar sem rennt er á milli tóna „í kross“. Framlag strengjasveitarinnar er yfirleitt fremur kliðmjúkt, með vaggandi hreyfingum hljóma. Spennan eykst smátt og smátt og nær hápunkti í sjötta þætti („Það er fullkomnað“) sem hefst með dramatískri og ómstríðri einleikskadensu harmóníkunnar. Í kyrrlátum lokaþættinum losnar um spennuna, líkt og farið hafi verið yfir mörk þess sem hljóðfærin megna.