EN

Thomas Adès: Polaris

Thomas Adès er fæddur í London árið 1971 og er hann í hópi mikilhæfustu tónlistarmanna samtímans. Á verkalista hans sem tónskálds eru m.a. tvær óperur, mörg hljómsveitarverk, kórverk, einleiksverk og kammertónlist. Sem hljómsveitarstjóri hefur hann stjórnað mörgum af helstu hljómsveitum heimsbyggðarinnar og óperusýningum í leiðandi óperuhúsum bæði austan hafs og vestan. Þá er hann virtur konsertpíanisti og kemur reglulega fram sem slíkur.

Adès var listrænn stjórnandi Aldenburgh-hátíðarinnar frá 1999–2008. Thomas Adès hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, þar á meðal Grammy-verðlaun fyrir óperuna Ofviðrið (The Tempest) árið 2014.

Adès stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Háskólabíói í nóvemberlok 2007. Á efnisskránni voru tvö verka hans – fiðlukonsertinn Concentric paths og hljómsveitarverkið Asylia.

Polaris kannar notkun á afstöðu stjarnanna í siglingafræði og tilfinningaflæði burtsigldra sjómanna og þess sem þeir skilja eftir heima. Verkið er skrifað fyrir hljómsveit, þar á meðal hóp málmblásara sem staðsetja má utan sviðsins. Þessi hljóðfæri leika keðjustef, eitt í hverjum af þremur hlutum verksins, fyrst háu hljóðfærin (trompetar) og síðast það dýpsta (túban). Laglína þeirra, líkt og annar efniviður í verkinu, er tekinn úr segultónaröð, tónamynstri sem hér heyrist í fyrsta sinn — þar sem allir tónarnir tólf eru kynntir einn af öðrum en sogast síðan inn í ákveðna röð líkt og fyrir segulkraft. Við fyrstu innkomu tólfta tónsins, sem pákan kynnir í sinni fyrstu innkomu, er segulskautinu snúið við. Í upphafi þriðja og síðasta hlutans uppgötvast þriðja skautið sem myndar stöðugt jafnvægi við það fyrsta.