EN

Thomas Adès: Three Studies from Couperin

Thomas Adès hefur um áratuga skeið verið meðal virtustu tónskálda Bretlands, auk þess að vera afburða hljómsveitarstjóri og píanóleikari. Hann vakti fyrst verulega athygli þegar hann vann til verðlauna í BBC Young Musician of the Year-keppninni 1989, og sama ár hóf hann háskólanám við King’s College í Cambridge. Hann lauk þaðan námi með ágætiseinkunn og frami hans næstu árin var ævintýri líkastur. Hann skaust skjótt upp á stjörnuhimininn og hlaut fjölda pantana m.a. frá Birmingham-sinfóníuhljómsveitinni og Sir Simon Rattle, sem hefur verið einn dyggasti stuðningsmaður hans gegnum árin.

Í verki sínu Three Studies from Couperin tekur Adès þrjá þætti úr sembalsvítum eftir franska barokktónskáldið François Couperin (1668–1773) og útsetur á einkar frumlegan hátt fyrir tvær litlar kammersveitir. Hver þáttur hefur sama fjölda takta og upphaflega gerðin, en þó eru þetta langt frá því að vera venjulegar útsetningar. Hann kannar eiginleika efniviðarins með ýmsu móti, til dæmis í fyrsta þættinum (Les Amusements) með því að láta áferðina flæða úr einu í annað.