EN

Þórður Magnússon: Námur

Þórður Magnússon tónskáld er fæddur í Reykjavík árið 1973. Hann lauk prófi í tónsmíðum og tónfræði við framhaldsdeild Tónlistarskólans í Reykjavík vorið 1996 og nam í kjölfarið veturlangt við Conservatoire de Paris sem handhafi verðlauna sem kennd eru við Jean-Pierre Jacquillat. Þórður hefur ennfremur tekið þátt í Young Nordic Music Festival í Helsinki og Kaupmannahöfn auk þess sem hann hefur sótt námskeið og fyrirlestra hjá Philippe Manoury og Magnus Lindberg auk annarra. Eftir heimkomuna til Íslands hefur Þórður öðlast viðurkenningu sem mikilsvirt tónskáld og útsetjari. Frá árinu 2002 hefur hann kennt tónsmíðar, hljómfræði, tónheyrn, tónlistarsögu og kontrapunkt við Tónlistarskólann í Reykjavík og Tónlistarskóla Garðabæjar.

Um verk sitt segir Þórður: „Verkið Námur var pantað af Guðmundi Emilssyni sem hluti af röð þar sem nokkur tónskáld voru beðin um að semja verk sem notuðust við sömu hljóðfæraskipan og verkið Adagio eftir Jón Nordal og þá honum til heiðurs. Verkin áttu að kallast á við það verk án þess þó að líkja endilega eftir tónlistinni sjálfri.“ Námur var frumflutt í Langholtskirkju 9. apríl 2010 af Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Andrew Massey. Með beiðni Guðmundar fylgdi samnefnt ljóð Guðbergs Bergssonar, og Þórður segir að verkið sé afrakstur þeirra hughrifa sem ljóðið vakti með honum.

Námur deila fleiru en hljóðfæraskipaninni með Adagio Jóns Nordal því yfirbragðið er nokkuð íhugult rétt eins og í síðarnefnda verkinu. Úr djúpri undiröldu upphafstaktanna rísa bjartari línur flautu og hörpu. Andstæður eru áberandi framan af; draumkenndar hendingar flautu og hörpu annars vegar, hins vegar leikur strengjahljóðfæranna þar sem þróttmikill og afgerandi hrynur er áberandi. Lokamínútur verksins eru öllu kyrrlátari, líkt og samruni eigi sér stað.