EN

Þorsteinn Hauksson: Sinfónía nr. 2

Þorsteinn Hauksson (f. 1949) stundaði píanónám við Tónlistarskólann í Reykjavík og sótti einnig tíma í tónsmíðum hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni. Að loknu einleikaraprófi frá skólanum hélt hann til tónsmíðanáms í Bandaríkjunum, fyrst við háskólann í Illinois en síðar við Stanford-háskóla. Hann var einnig um tveggja ára skeið við tónsmíðar og rannsóknir í IRCAM tölvutónlistarmiðstöðinni í París og samdi þá verkið Are We? sem var pantað af miðstöðinni og frumflutt af hinni virtu kammersveit Ensemble intercontemporain. Þorsteinn er helsti frumkvöðull íslenskrar tölvutónlistar. Hann hefur um árabil verið búsettur á meginlandi Evrópu og verk hans hafa hljómað í flestum löndum álfunnar, í Bandaríkjunum, Kanada, Japan og Kína, en eru fremur sjaldheyrð á Íslandi. Hann hefur þrívegis verið tilnefndur til Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrst 1988 fyrir hljómsveitarverkið Ad astra, þá fyrir cho sem samið er fyrir flautu og tölvuhljóð, og árið 1996 var það verkið Bells of Earth fyrir hljómsveit og tölvuhljóð.

Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti fyrstu sinfóníu Þorsteins á Myrkum músíkdögum árið 2006. Verkið hlaut einkar lofsamlegan dóm í Morgunblaðinu og sagði gagnrýnandinn, Jónas Sen, m.a. að það einkenndist af sjaldheyrðri dirfsku. Hann klykkti út með þessum orðum: „Þessi sinfónía Þorsteins lofar svo sannarlega góðu; óskandi er að þær verði miklu fleiri.“ Þorsteinn samdi sinfóníu nr. 2 heyrist árið 2014. Hún hefur allt aðra byggingu en sú fyrsta sem var í þremur köflum. Hér eru á ferðinni átta stuttir kaflar sem kallast á við japanskar hækur þar sem dregnar eru upp flöktandi hugdettur.