EN

Þuríður Jónsdóttir

Installation Around a Heart

Installation Around a Heart var samið fyrir norska harmóníkuvirtúósinn Geir Draugsvoll sem frumflutti verkið ásamt CAPUT 2005. Heitið vísar í innsetningu og einhverjum þræði má skynja verkið sem form myndlistar; hljóðinnsetningu og lifandi gjörning. Í miðjunni er hjartað, harmóníkan, sem þenst út og dregst saman, flytur orku og súrefni til annarra líkamshluta og glæðir hljóðfærin í kringum sig lífi. Á sviðinu verður smátt og smátt til einn stór líkami sem stynur, grætur og andvarpar. Upphaf verksins er ofurveikt og viðkvæmt. Úr þögninni birtir harmóníkan fíngert hljóðróf í óræðum púls, hikandi, sækir í sig veðrið og deyr svo út. Aftur tekur harmóníkan að slá, þenjast út og dragast saman; smám saman tekur kyrrstæður heimurinn að vakna úr dvala, knúinn áfram af hjartslætti harmóníkunnar. Yfirbragð verksins er framan af íhugult og kyrrlátt, mikið rými til að gefa gaum að blæbrigðum og þeirri margslungnu litadýrð sem Þuríði tekst að galdra úr efnivið sínum þar sem hljóðrófið, sem kynnt var í upphafi, er bjagað og strekkt. Um miðbikið kemst á meiri hreyfing, dýpri undirtónar og ókyrrð þar til harmóníkan tekur að slá rólegar á ný; nú dýpri, þroskaðri, alvarlegri. Undir lokin í samtali við misbjöguð hljóðróf ólíkra líkamshluta þar til þögnin ræður ríkjum á ný.

Þuríður Jónsdóttir (f. 1967) hefur fyrir löngu skipað sér í röð eftirtektarverðustu tónskálda hér á landi með tónsmíðum sínum fyrir fjölbreytilega tónlistarhópa og ólíka miðla. Í verkum sínum nýtir Þuríður sér gjarnan hljóðuppsprettur náttúru, frá hinu smæsta til hins víðfeðmasta. Á meðal nýlegra verka má nefna fiðlukonsertinn Leikslok (2021), hljómsveitarverkið The CV of a Butterfly (2020) og Fánu (2019) fyrir strengjakvartett og hljóðupptöku. Á meðal þekktustu verka Þuríðar má nefna hljómsveitarverkið Flow and Fusion (2002) og flautukonsertinn Flutter (2009). Þuríður hefur hlotið Íslensku tónlistarverðlaunin og þrívegis verið tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs.

Installation Around a Heart var frumflutt árið 2005 af Geir Draugsvoll og CAPUT á tónleikum á Myrkum músíkdögum undir stjórn Guðna Franzsonar. Hljóðritun af verkinu kom út á safnplötu árið 2007 sem helguð er tónlist eftir norrænar tónlistarkonur. Elja kammersveit flutti verkið á tónleikum ásamt Jónasi Ásgeiri síðla árs 2018. Það hljómar á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í fyrsta sinn hér í kvöld.