EN

Þuríður Jónsdóttir: Flutter

Þuríður Jónsdóttir (f. 1967) nam flautuleik og tónsmíðar við Tónlistarskólann í Reykjavík og síðar við Konservatoríið í Bologna á Ítalíu þar sem hún lauk diplómagráðu í flautuleik, tónsmíðum og raftónlist. Einnig hefur hún sótt námskeið hjá Franco Donatoni hjá Accademia Chigiana í Siena og Alessandro Solbiati hjá Accademia di Novara á Ítalíu. Verk eftir Þuríði hafa verið pöntuð og flutt af ýmsum tónlistarhópum og flutt á hátíðum eins og Présences í París, Klang í Kaupmannahöfn, á Norrænum músíkdögum, ISCM og New Directions. Verk hennar hafa verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og til Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs 2006, 2010 og 2012.

Flutter er samið í minningu Oliviers Messiaen og var pantað af Ríkisútvarpinu í tilefni af 100 ára fæðingarafmæli hans. Verkið er í fjórum þáttum sem renna saman og mynda eina stóra heild. Þuríði fallast svo orð um tónsmíðina: „Í verkinu leika með hljómsveitinni engisprettur og krybbur frá meginlandi Evrópu. Flökt leðurkenndra vængja þeirra myndar kontrapunkt við flautuleikinn í forgrunni verksins. Fjórir kaflar verksins mynda eina atburðarás og er fyrsti þátturinn, „Sálin í bruminu“ þeirra lengstur. Heiti hans, sem og heiti 3. þáttar, „Í síðu steinsins“ er fengið að láni úr ljóðaflokknum Lâme en bourgeon eftir Cécile Sauvage, móður Oliviers Messiaen. Í þessum ljóðum sem hún semur til ófædds sonar síns segir hún fyrir um örlög hans sem tónlistarmanns, ást hans á náttúruhljóðum og framandi menningarheimum. „Ég varð fyrir mikilvægustu áhrifum lífs míns á fósturskeiði“ segir Messiaen á einum stað og vísar þar til ljóðaflokks móður sinnar.“

„Ég valdi nótuna H sem grunntón verksins, en það er dýpsti tónn flautunnar. Hljómaefnið er fengið úr hinni náttúrulegu tónaröð, eða hljóðrófi, sem tónninn myndar og þróast í meginatriðum þannig að hljóðrófið er dekkt eða lýst. Það var skemmtileg uppgötvun og nánast dularfullt þegar ég komst að því að nafn Messiaen féll nákvæmlega inn í grunnhljóm verksins: m-Es-Si-A-E-n. Þess má geta að í verkinu eru tilvitnanir í Le merle noir eða Svartþröstinn eftir Messiaen frá árinu 1952, eitt mikilvægasta verk flautubókmenntanna.“