EN

Tsjajkovskíj: Rómeó og Júlía, fantasíuforleikur

Pjotr Tsjajkovskíj (1840–1893) stundaði tónlistarnám í Sankti Pétursborg og útskrifaðist úr tónlistarháskóla borgarinnar 25 ára gamall. Skömmu síðar bauðst honum kennarastaða við nýstofnaðan tónlistarháskóla í Moskvu og þar kenndi hann í rúman áratug. Í Moskvu kynntist hann tónskáldinu Mili Balakirev sem var mikill áhrifavaldur á þjóðlegan stíl rússneskra tónskálda um þetta leyti. Balakirev leitaðist við að finna jafnvægi milli hinna klassísku vestrænu hefða og rússnesks þjóðaranda í tónsköpun og var lærifaðir Músorgskíjs, Rimskíj-Korsakovs og Borodins, svo nokkrir séu nefndir. Hann gaf Tsjajkovskíj góð ráð varðandi tónsmíðarnar og líklega hefði forleikurinn um Rómeó og Júlíu aldrei litið dagsins ljós ef ekki hefði verið fyrir tilstilli Balakirevs.

Í hljómsveitarforleik Tsjajkovskíjs renna form og innihald saman á sérlega vel heppnaðan hátt. Verkið hefst á hægum inngangi sem hefur trúarlegan blæ og lýsir Bróður Lárens í klausturklefa sínum. Meginhluti forleiksins er í sónötuformi og tvær meginhugmyndir eru ráðandi. Fyrra stefið er ágengt og ofsafengið og lýsir fjandskap Kapúlett- og Montag-ættanna, en hið seinna táknar ástir Rómeós og Júlíu. Niðurlagið byggir einnig á ástarstefinu, en nú er það kaldur og lífvana útfararmars.

Segja má að Tsjajkovskíj hafi fundið sína eigin rödd með forleiknum um Rómeó og Júlíu. Hann var tiltölulega óreyndur sem hljómsveitartónskáld og hafði aðeins samið eina sinfóníu, enda ekki nema 29 ára gamall. Tsjajkovskíj sótti aftur í sjóð Shakespeares síðar á ferlinum – forleiki byggða á Ofviðrinu (1873) og Hamlet (1878) – en hvorugt þessara verka skákar þó Rómeó og Júlíu-forleiknum hvað vinsældir varðar.