EN

Úlfur Hansson: Arborescence

Úlfur útskrifaðist árið 2015 með mastersgráðu í raftónlist frá Mills College í Kaliforníu, og starfar nú sem tónlistarmaður og upptökustjóri í Brooklyn, New York. Meðal helstu verka sem flutt hafa verið eftir Úlf síðastliðið ár eru Innstirni fyrir einleikspíanó Interwoven fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, Urð fyrir blandaðan kór, Þýð fyrir strengjatríó, Útfrymi fyrir 8 selló, Skin Continuum fyrir uchiwa taiko-trommu/rafmagn og Weightlessness fyrir míkrótónal kirkjuorgel.

Úlfur var tilnefndur sem bjartasta von Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2008, hlaut nýsköpunarverðlaun forseta Íslands árið 2013 og fyrstu verðlaun í tónlistarsamkeppni Alþjóðlega tónskáldaþingsins sama ár, en hann var tilnefndur fyrir hönd Íslands af RÚV.

Hann leggur um þessar mundir lokahönd á plötu samnefndri verkinu Arborescence, sem tekin var upp í New York og Seattle með upptökustjóranum Randall Dunn, ásamt Gyðu Valtýsdóttur, Shahzad Ismaily, Zeenu Parkins, Skúla Sverrissyni, Greg Fox og Alex Somers. Platan Arborescence kemur út um allan heim vorið 2017.

Hljómsveitarverkið Arborescence var samið fyrir L'Orchestre Philharmonique de Radio France árið 2016. Verkið dregur nafn sitt af mynstrum trjágreina, þar sem hliðstæðir möguleikar kvíslast sundur og vaxa í ólíkar áttir. Líkt og útlínur eldinga teygist hver sproti í þá átt sem sýnir minnst viðnám, í átt að ljósi eða í átt að jörðu. Hugsunin er sú sama í uppbyggingu verksins, en þegar umbreyting á sér stað í laglínum einstakra hljóðfæraleikara myndast keðjuverkun sem vex gegnum hljómsveitina. Hreyfingin endurvarpast milli hljóðfæraleikaranna og hljóðmassinn vex. Stundum er massinn þykkur líkt og trjákróna, annars staðar er hver lína löng og mjó eins og sproti, sem teygir sig í átt að næsta hluta verksins.