EN

W.A. Mozart: Balletttónlist úr óperunni Idomeneo

Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) var eins og kunnugt er eitt mesta undrabarn sögunnar. Hann kom í heiminn í Salzburg en ferðaðist víða um álfuna á barnsaldri og honum varð ljóst þegar á unglingsárum að tónlistarlíf heimabæjarins fullnægði ekki listrænum kröfum hans. Verst þótti honum að í Salzburg var ekkert óperuhús. „Ég öfunda hvern þann sem skrifar óperur,“ skrifaði hann föður sínum árið 1778, þá 22 ára gamall. „Ég gæti hreinlega grenjað af gremju þegar ég heyri eða sé óperuaríu.“ Ári síðar var þolinmæði hans gagnvart fæðingarbænum endanlega þrotin: „Ég þoli hvorki Salzburg né íbúa hennar.“

Mozart hlaut langþráð tækifæri haustið 1780 þegar pöntun barst um nýja óperu fyrir kjörfurstann í München. Útkoman var Idomeneo (Idomeneus), sem er opera seria – „alvarleg ópera“, þ.e.a.s. með söguefni í þyngri kantinum – og eitt áhrifamesta verk í þeirri grein frá síðari hluta 18. aldar. Þar segir frá konungi Krítar sem lendir í aftakaveðri á sjó og lofar sjávarguðinum Neptúnusi að fórna honum hverjum þeim sem hann rekist fyrstur á þegar í land sé komið. Svo illa vill til að það er einmitt sonur hans, Idamante, og því reynir Idomeneus allt hvað hann getur til að fara á svig við sáttmálann. Allt fer raunar vel að lokum, en til að friða Neptúnus afsalar Idomeneus sér konungdómi og leyfir syni sínum að taka við krúnunni. Óperan Idomeneo markaði á sinn hátt tímamót á ferli Mozarts; með henni gerði

hann heiminum ljóst að hann væri líklegur til stórafreka á sviði óperunnar. Þó var hann ekki nema 25 ára og tveggja daga gamall þegar hún var flutt í fyrsta sinn í hirðleikhúsinu í München (nú kallað Cuvilliés-Theater) í janúar 1781.

Í óperum 18. aldar var oft gert ráð fyrir ballettatriðum og slíkt var Mozart síst á móti skapi í þessu tilviki þar sem hljómsveitin í München var afbragðsgóð. Balletttónlistin er alls fimm þættir og tveir þeirra hljóma hér. Chaconne eða sjakonna er lengsti og glæsilegasti kaflinn. Verk með því heiti voru algeng á 17. og 18. öld og fela í sér tilbrigði um hljómagang sem endurtekinn er í sífellu. Mozart fer þó sína eigin leið í þessu máli, skapar eins konar hringform þar sem ýmis stef hljóma til skiptis. Seinni þátturinn sem hér hljómar er pas seul, sólódans fyrir sjálfan dansmeistarann við hirðina í München, sem gaf sjálfum sér tækifæri til að stíga fram í sviðsljósið í líflegum dansi.