EN

W.A. Mozart: Non mi dir úr Don Giovanni

Texti eftir Mörtu Kristínu Friðriksdóttur

Wolfgang Amadeus Mozart (1756-1791) er án efa eitt þekktasta tónskáld sögunnar. Óperuna Don Giovanni samdi hann á um það bil mánuði og fer tvennum sögum af því hvort hann kláraði forleikinn daginn fyrir frumsýningu eða á sjálfan frumsýningardaginn! Söguþráðurinn fjallar um hinn alræmda flagara Don Giovanni sem ferðast um Evrópu, heillar og tælir konur ásamt því að svíkja flesta sem á vegi hans verða og fremja ýmis ódæðisverk, meðal annars drepur hann föður Donnu Önnu. Þegar hún syngur þessa aríu er hún enn í miklu ójafnvægi vegna dauða föður síns og biður elskhuga sinn (Don Ottavio) að bíða með að ræða hjónaband þar til hún hefur jafnað sig. Hún segist elska hann en biður hann að sýna sér þolinmæði og skilning.