EN

W.A. Mozart: Píanókonsert nr. 21

Það var stórt skref fyrir Mozart að halda til Vínarborgar og freista gæfunnar í stórborginni einn og óstuddur. Nú til dags kann það að virðast fremur léttvægt skref fyrir tónlistarmann að treysta á lausamennsku, en á tímum Mozarts var það fáheyrt að tónskáld gegndi ekki föstu starfi hjá kirkju eða kóngi. Til að byrja með gekk honum allt í haginn enda var Vínarborg ein helsta miðstöð tónlistar í Evrópu. Mozart hafði líka nóg að iðja jafnvel þótt ekki væru pantaðar hjá honum eins margar óperur og hann hafði vonast til. 

Hann hélt til dæmis nokkra stóra tónleika á eigin vegum, svokallaðar akademíur, þar sem hann flutti glæný verk sín með hljómsveit og lék að auki einleik á píanó. Slíkir tónleikar voru áhættusamir: tónskáldið þurfti að leigja bæði hljómsveit og sal, en gat líka hirt allan gróðann ef einhver var. Með þessu móti þénaði Mozart dágóðar fúlgur um nokkurt skeið, enda naut tónlist hans mikilla vinsælda og hann gat leyft sér að lifa hátt, klæðast fínustu skartklæðum og láta þjónustufólki eftir heimilishaldið. 

Hvað konsertsmíðar snertir var gullöldin á árunum 1784–86. Hinn 3. mars 1784 ritaði Mozart föður sínum í Salzburg, kvaðst hafa haldið 22 tónleika á 38 dögum og bætti við: „Ég held að með þessu móti komist ég ómögulega úr æfingu“. Afköstin voru hreint ótrúleg hvort sem miðað er við magn eða gæði; hvorki fleiri né færri en 12 nýir píanókonsertar litu dagsins ljós frá febrúar 1784 til desember 1786. Flestir voru þeir frumfluttir af honum sjálfum við flygilinn og þannig var með C-dúr konsertinn sem hér hljómar. Hann heyrðist fyrst á tónleikum í Burgtheater í Vínarborg 10. mars 1785. 

Fyrsti kaflinn er fjörugur og glæsilegur; undir lok kaflans hefur Mozart spunnið kadensu af fingrum fram á tónleikunum í Burgtheater því að engin slík hefur varðveist frá hans hendi fyrir þennan konsert. Andante-þátturinn hafði lengi verið meðal dáðustu verka meistarans, en árið 1967 komst hann skyndilega á metsölulista þökk sé sænsku kvikmyndinni Elvira Madigan. Í raun er tónlistin eins konar aría fyrir píanistann, en hljómsveitin leggur til litríka hljóma sem ekki eru alltaf eins saklausir og þeir virðast við fyrstu heyrn. Í síðasta kaflanum er aftur sprett úr spori; hraði og gáski einkenna tónlistina allt frá fyrsta takti til hins síðasta