EN

W.A. Mozart: Píanókonsert nr. 25

Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) var svo sannarlega önnum kafinn í desemberbyrjun árið 1786. Hann var á leið til Prag, þar sem æfingar stóðu yfir á Brúðkaupi Fígarós, og hafði tvö verk í smíðum, píanókonsert í C-dúr
og sinfóníu í D-dúr sem síðar hlaut viðurnefnið Prag-sinfónían. Hann lauk við konsertinn hinn 4. desember og frumflutningurinn fór fram degi síðar. Væntanlega hafa einhverjir nótnaritarar á vegum tónskáldsins átt vökunótt fyrir höndum þar sem skrifa þurfti út hljómsveitarraddir, og hafi þær verið til taks snemma næsta morgun gafst ekki ráðrúm til að æfa nema einu sinni áður en tónleikarnir hófust. Mozart lék konsertinn aftur í Vínarborg og Leipzig í apríl og maí 1787 en síðan virðist það hafa horfið í skuggann af frægari konsertum Mozarts. Þegar píanistinn Artur Schnabel flutti verkið með Vínarfílharmóníunni árið 1934 var tekið fram að það væri fyrsti flutningur þess í Vínarborg í 147 ár, eða frá því að Mozart sjálfur lék það síðast.

Erfitt er að segja til um orsakir þess að píanistar sýndu konsertinum nr. 25 slíkt tómlæti. Raunar er það enn svo að C-dúr konsertinn hljómar mun sjaldnar en til dæmis hinir vinsælu í d-moll, c-moll og A-dúr, svo ekki sé minnst á „hinn“ C-dúr konsert Mozarts, píanókonsertinn K. 467 sem varð til hálfu öðru ári áður. Kannski þykir sumum vanta eitthvað upp á fjörmikið virtúósaspil í einleiksröddinni, en þá má geta þess að tónlist Mozarts varð að sumu leyti hógværari á síðustu æviárum hans. Í verkum eins og píanósónötunni í B-dúr K. 570 þróaði hann nýja tegund einfaldleika, tónlist sem er ávallt upphafin og yfirveguð, og hið sama má segja um konsertinn í C-dúr.

Með konsertinum K. 503 lauk einu mesta blómaskeiði píanókonsertsins í gjörvallri sögu tónlistarinnar. Frá 1784 til ársloka 1786 var smíði og flutningur píanókonserta eitt helsta viðfangsefni Mozarts í listinni. Hann samdi alls fjórtán konserta fyrir píanóið á rúmum þremur árum, og séu gæðin höfð í huga eru afköstin nærri því ofurmannleg. Mozart setti sér hið torvelda takmark að höfða til tveggja ólíkra áheyrendahópa í senn, annars vegar atvinnutónlistarfólks og vel kunnandi áhugamanna, hins vegar hirðfólks sem hafði takmarkaða þolinmæði gagnvart nýstárlegum uppátækjum. Að þóknast báðum var hægara sagt en gert. Í bréfi til föður síns sagði Mozart meðal annars um konsertana K. 413–415: „Þeir feta góðan milliveg milli þess sem er of einfalt og þess sem er of flókið; þeir eru glæsilegir, geðjast eyrunum vel, og eðlilegir án þess að vera ódýrt kveðnir. Það eru kaflar hér og hvar sem aðeins hinir vel kunnandi geta notið til fulls, en ég samdi þá þannig að jafnvel hinir minna lærðu geta ekki annað en glaðst yfir þeim, þótt þeir viti ekki af hverju.“ Þótt Mozart hafi ritað þessi orð fjórum árum fyrr má fullyrða að þau eiga ekki síður vel við um konsertinn K. 503.