EN

W.A. Mozart: Exsulate, jubilate

Exsultate, jubilate var frumflutt í Sant'Antonio-kirkjunni í Mílanó þann 17. janúar 1773, tíu dögum fyrir sautjánda afmælisdag tónskáldsins. Mozart og faðir hans höfðu dvalist í borginni frá því síðla um haustið því Wolfgang hafði verið falið að semja nýja óperu fyrir óperuhúsið Teatro Regio Ducale. Óperan, sem var frumsýnd á annan dag jóla 1772, fékk heitið Lucio Silla og var byggð á atburðum úr sögu Rómaveldis líkt og fyrri ópera Mozarts fyrir Mílanóhúsið, Mitridate, rè di Ponto. Eitt aðalhlutverkið var í höndum geldingsins Venanzios Rauzzini, afburðasöngvara. Wolfgang hafði heyrt hann syngja fáeinum árum fyrr í Vínarborg, hrifist mjög og var eftir því spenntur að fá að skrifa hlutverk fyrir hann. Rauzzini hafði breitt raddsvið og einstaka hæfni til þess að syngja flúraðar línur (kóloratúr). Feðgarnir urðu ekki fyrir vonbrigðum með sönginn: Leopold Mozart skrifaði konu sinni heim frá Mílanó og sagði að Rauzzini syngi eins og engill og eftir að óperan var komin á fjalirnar samdi Wolfgang nýtt stykki fyrir hann, mótettuna Exsultate, jubilate sem sannarlega gaf þessum óviðjafnanlega söngvara færi á að leika listir sínar.

Heitið mótetta er venjulega haft um fjölradda kórtónverk en það getur einnig átt við verk eins og hér heyrist. Á Ítalíu voru slík verk flutt inni í messu og líklega hefur það átt við um frumflutning mótettu Mozarts. Hún er samin fyrir strengi, tvö óbó, tvö horn og orgel, auk söngvarans, og skiptist í fjóra kafla, eiginlega þrjár aríur með sönglesi milli hinna fyrstu tveggja. Í fyrsta og síðasta kafla er öllu tjaldað til, öll hljóðfærin hljóma með söngvaranum í fagnaðarsöng. Annar kaflinn er söngles með orgel-fylgirödd en í þeim þriðja syngur sópraninn bæn til heilagrar Guðsmóður við strengjaundirleik. Mozart skóp handa Rauzzini verk sem á margt skylt við óperur tónskáldsins. Það geymir í senn undurfagrar laglínur, krefjandi flúrsöng og kadensur þar sem söngvarinn fær tækifæri til þess að syngja frá eigin brjósti, og þarf engan að undra að þetta æskuverk sé í hópi dáðustu tónsmíða Mozarts.