EN

W.A. Mozart: Píanókonsert nr. 23

Á vordögum 1781 sagði Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) skilið við vinnuveitanda sinn, erkibiskupinn af Salzburg, og freistaði gæfunnar í Vínarborg. Nú til dags kann það að virðast léttvægt skref fyrir tónlistarmann að treysta á lausamennsku í listinni en á dögum Mozarts var það fáheyrt að tónlistarmaður gegndi ekki föstu starfi annaðhvort hjá kirkju eða aðalsfólki. Til að byrja með gekk honum flest í haginn. Honum gáfust tækifæri til að semja óperur en hann hélt einnig stóra tónleika á eigin vegum þar sem hann flutti ný verk sín með hljómsveit og lék einleik á píanó.

Því var það að á árunum 1784–86 samdi Mozart hvern píanókonsertinn á eftir öðrum til eigin nota við tónleikahald. Sá nr. 23 leit dagsins ljós á fyrstu dögum marsmánaðar 1786, eins konar hvíld frá hinu mikla óperuverkefni sem Mozart vann að um sama leyti: Brúðkaupi Fígarós. Konsertinn er sérlega ljúfur og þýður. Slíkt einkennir raunar öll tónverk Mozarts í A-dúr, einnig klarínettkonsertinn víðfræga svo dæmi sé tekið. Hægur miðkafli verksins hefur þó yfir sér annan blæ. Mozart samdi fremur sjaldan í moll, og enn sjaldnar notaði hann hraðaforskriftina Adagio, mjög hægt. Hér gerir hann hvort tveggja og tónlistin einkennist af djúpum og ljúfsárum trega.

Ekki er úr vegi að skýra í stuttu máli fyrirbærið kadensu. Í konsertum klassíska tímans dregur hljómsveitin sig í hlé undir lok fyrsta þáttar en einleikarinn heldur áfram einn síns liðs um skeið. Í kadensum gefst sólistanum færi á sýna færni sína án þess að taka tillit til samspils við hljómsveitina og á dögum Mozarts voru slíkir einleikskaflar nær ávallt spunnir af fingrum fram. Konsertinn í A-dúr K. 488 er raunar sá eini af öllum konsertum Mozarts þar sem hann ritaði kadensu beint inn í sjálft handritið að verkinu. Stundum skrifaði hann kadensur á laus blöð en oftar lét hann skeika að sköpuðu og kaflarnir urðu til á sjálfu augnabliki flutningsins. Þó er ekki þar með sagt að Mozart hafi ætlast til þess að þessi tiltekna kadensa fyrir píanókonsertinn í A-dúr myndi fylgja verkinu í hvert sinn sem það væri flutt. Líklega hefði honum þótt eðlilegra að hver píanisti hefði þennan hluta verksins eftir sínu höfði – en væntanlega hefði hann þó ekki grunað að konsertinn í A-dúr yrði enn slíkt eftirlætisverk ríflega 230 árum eftir að það hljómaði í fyrsta sinn.