EN

W.A. Mozart: Píanókonsert nr. 24

Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) var einn mesti píanósnillingur Evrópu á síðustu áratugum 18. aldar. Frá því skömmu eftir að hann fluttist til Vínarborgar 1781 og þar til vorið 1786 var smíði og flutningur píanókonserta eitt helsta viðfangsefni hans í listinni og aðaltekjulind. Hann samdi alls fjórtán konserta fyrir píanóið á rúmum þremur árum; séu gæðin höfð í huga eru þessi afköst nærri því ofurmannleg. Ekki síst þar sem Mozart setti sér hið torvelda takmark að höfða með þessum konsertum til tveggja ólíkra áheyrendahópa í senn: annars vegar atvinnutónlistarfólks og vel kunnandi áhugamanna, hins vegar hirðfólks sem almennt var lítt kunnandi í tónlist og hafði takmarkaða þolinmæði gagnvart nýstárlegum uppátækjum. Að þóknast báðum var hægara sagt en gert. Í bréfi til föður síns segir Mozart meðal annars um konsertana K. 413–415: „Þeir feta góðan milliveg milli þess sem er of einfalt og þess sem er of flókið; þeir eru glæsilegir, geðjast eyrunum vel, og eðlilegir án þess að vera ódýrt kveðnir. Það eru kaflar hér og hvar sem aðeins hinir vel kunnandi geta notið til fulls, en þessir kaflar eru skrifaðir þannig að jafnvel hinir minna lærðu geta ekki annað en glaðst yfir þeim, þótt þeir viti ekki af hverju.“

Í konsertinum í c-moll gerir Mozart þó meiri kröfur til hlustenda sinna en almennt tíðkaðist í þessari grein. Það var sjaldgæft á klassíska skeiði tónlistarsögunnar að semja einleikskonserta í moll; Mozart samdi aðeins tvo (af 23) og Beethoven einn (af 6). Konsertar áttu almennt að vera líflegir og uppörvandi, í takt við bjartsýnisskeið upplýsingarinnar. Í c-moll konsertinum er málað með dekkri litum og margt óvenjulegt ber fyrir eyru strax í upphafstöktunum. Verkið hefst með örveiku einradda stefi sem í fyrstu ellefu töktunum spannar alla tólf krómatísku tónana; sagt hefur verið að krómatíkin í upphafsstefinu einu saman hefði nægt Gluck í heila óperu. Hægi kaflinn er angurvær og hefst með einföldu stefi sem þó hefur sérkennilega breitt tónsvið; lokakaflinn er eins konar mars með sex tilbrigðum og niðurlagi. Athygli vekur að Mozart sveigir ekki yfir í dúr í lokatöktunum, eins og almennt tíðkaðist þegar samið var í moll, og eins og hann hafði sjálfur gert í konsertinum í d-moll K. 466 ári fyrr. Dökkir tónar eru allsráðandi allt fram að lokataktinum.

Mozart lagði lokahönd á konsertinn í Vínarborg 24. mars 1786 og frumflutti hann á tónleikum sínum í Burgtheater tveimur vikum síðar. Af viðtökum áheyrenda fer engum sögum en kannski er það til marks um dræmar undirtektir að þetta voru síðustu tónleikarnir sem Mozart stóð fyrir í þessu helsta tónleikahúsi borgarinnar. Héðan í frá reyndist honum örðugra að selja verk sín til útgáfu, óperupantanir bárust seint og illa og innan skamms var hann kominn í verulegar fjárhagskröggur. Þótt Mozart hafi verið á hátindi ferils síns vorið 1786 stefndi hann enn hærra, og þótt tónlist hans hljómi þægilega í eyrum í dag má ekki gleyma því að hinir nýstárlegri þættir hennar reyndust mörgum samtímamönnum hans hreinlega ofviða. Einn samtímamaður hans drakk þó í sig þessa nýju nálgun við tónlistina: Ludwig van Beethoven. Líklega er það engin tilviljun að tóntegundin c-moll skuli vera áberandi í verkum hins síðarnefnda og um áhrif píanókonsertsins K. 491 á tónsköpun Beethovens þarf ekki að fjölyrða. Þegar hann heyrði konsertinn í fyrsta sinn er sagt að hann hafi haft á orði: „Við eigum aldrei eftir að geta gert nokkuð þessu líkt!“