EN

W.A. Mozart: Sinfónía nr. 41

Júpíter

Menn hafa lengi velt því fyrir sér hvað varð til þess að Wolfgang Amadeus Mozart (1756–1791) samdi þrjár mestu sinfóníur sínar á innan við átta vikum sumarið 1788. Lengi var það trú manna að á þessum tíma hafi hinn misskildi snillingur verið hvað verst leikinn af meðbræðrum sínum og því séð sig knúinn til að semja verk sem gætu gefið eitthvað í aðra hönd. Víst voru þetta erfiðir tímar í lífi hans en það stafaði einkum af því að veldi Habsborgara átti í gríðarmiklum vandræðum um þetta leyti. Afleiðingin var kreppa sem snerti alla íbúa austurríska keisaradæmisins. Jósef II háði um þessar mundir stríð við Tyrki í nafni Katrínar, keisaraynju Rússa, en ekki fór betur en svo að herinn sneri heim árið 1790 eftir þriggja ára dýrkeypta niðurlægingu. Kreppan í Vínarborg hafði afleit áhrif á listalíf borgarinnar: aðalsfólk dvaldi heldur í Ungverjalandi, einkahljómsveitir lögðust af og tónleikum fækkaði. Mozart varð fyrir barðinu á kreppunni, til dæmis var engin ópera pöntuð frá honum á stríðsárunum og áform um tónleikahald í Vínarborg urðu öll að engu. Í júlí 1788 – mánuði áður en hann lauk við Júpíter-sinfóníuna – ritaði hann vini sínum Michael Puchberg örvæntingarfull bréf þar sem hann biður um lán þar til eftirspurn eftir tónlist sinni taki að glæðast á nýjan leik.

C-dúr sinfónían K. 551 er síðasta sinfónía Mozarts og hefur lengi verið talin standa framar öðrum sinfóníum klassíska tímans. Strax um 1820 voru Englendingar farnir að gefa henni viðurnefnið Júpíter, sem vísar til yfirburða hennar: hin æðsta af öllum sinfóníum meistarans. Í henni gengur Mozart í flestum skilningi lengra en ætlast var til í sinfónísku formi árið 1788 – músíkalskt, tæknilega og fagurfræðilega. Fyrsti þáttur er glæsilegur, með trompetum og pákum, en þótt tónlistin sé öryggið uppmálað er líka slegið á blíðari strengi. Annar kaflinn hefst á þokkafullu stefi sem víkur fljótt fyrir öðru, öllu órólegra, í moll.

En það er lokaþáttur Júpíter-sinfóníunnar sem hefur tryggt henni sess sem eitt mesta meistaraverk Mozarts, og er þá mikið sagt. Um það leyti sem Mozart samdi sinfóníuna hafði hann kynnt sér tónlist Bachs af mikilli kostgæfni, ekki síst fyrir tilstuðlan vinar síns Gottfrieds barón van Swieten, sem var yfirmaður menntamála í Vínarborg. Swieten var mikill áhugamaður um barokktónlist og hjá honum átti Mozart þess kost að grandskoða nótur að verkum Bachs og Händels, sem lágu ekki á lausu á þessum tíma. Afraksturinn hljómar í lokaþætti Júpíter-sinfóníunnar. Kaflinn er ekkert minna en tour de force hvað varðar kontrapunktíska tónhugsun: öll helstu stef þáttarins – fimm að tölu – eru þeim eiginleikum gædd að þau geta hljómað bæði hvert fyrir sig sem og samtímis í niðurlagi verksins, í fimm radda kontrapunkti.

Snilld af þeirri gerð sem Mozart sýnir í Júpíter-sinfóníunni er einkar fágæt. Verkið markar þáttaskil í sögu hins sinfóníska forms: eftir ríflega hálfrar aldar þróun hafði sinfónían breyst úr skemmtimúsík í alvarlega og metnaðarfulla tónsmíð, og á þeim forsendum tók Ludwig van Beethoven upp þráðinn árið 1800. Allt hans sinfóníska verk, sem og þeirra sem á eftir komu, byggði á þeim grunni sem Mozart lagði með síðustu sinfóníum sínum.