EN

Wolfgang Amadeus Mozart: Píanókonsert nr. 21, 2. kafli, Andante

Segja má að einleikskonsertinn sem tónsmíðaform hafi náð mikilvægum áfanga þegar fortepíanóið kom til sögunnar seint á átjándu öld en þar var loksins komið kröftugt hljóðfæri sem hafði í fullu tré við mannmarga hljómsveit. Mozart samdi 23 píanókonserta og mótaði að mörgu leyti formið, ekki síst með hinum innblásnu og frumlegu konsertunum sem til urðu á árunum 1784-6 í tengslum við tónleikaröð sem tónskáldið stóð fyrir í Vínarborg. Mozart var þá að nálgast þrítugt og alls ekkert undrabarn lengur heldur þroskaður, sjálfstæður listamaður sem hvorki var í þjónustu aðals né kirkju. Áskrifendur að tónleikaröð Mozarts áttu þess kost að heyra tónskáldið frumflytja eigin píanókonserta með hljómsveit og þar hljómaði konsertinn nr. 21 í C-dúr í fyrsta skipti í mars 1785. Næstu ár litu helstu meistaraverk Mozarts á óperusviðinu, svo sem Brúðkaup Fígarós (1786) og Don Giovanni (1787), dagsins ljós og andi óperunnar svífur víða yfir vötnum í píanókonsertunum. Hinn undurblíði hægi kafli sem hér hljómar minnir um margt á þýða óperuaríu og vegur salt milli einlægrar tjáningar og þeirrar hófsömu smekkvísi sem er aðalsmerki klassíska stílsins. Ef til vill var það þessi fágaði línudans sem fékk sænska kvikmyndaleikstjórann Bo Widerberg til þess að nota kaflann óspart í kvikmyndinni Elviru Madigan frá 1967, þar sem sannsöguleg ástarsaga loftfimleikakonu og hermanns er sögð. Samspil tónlistar og kvikmyndalistar var svo áhrifaríkt að enn í dag er konsertinn gjarnan nefndur Elvira Madigan-konsertinn.