EN

Wolfgang Amadeus Mozart: Úr Töfraflautunni

Die Zauberflöte (Töfraflautan) var síðasta óperan sem Mozart lauk við. Verkið er Singspiel, fyrsta ópera Mozarts við þýskan texta frá því að hann samdi Brottnámið úr kvennabúrinu níu árum fyrr. Þessar tvær óperur eru þó ólíkar um margt. Brottnámið var samin fyrir hirðóperuhús keisarans en Töfraflautan er alþýðuópera, samin með það fyrir augum að skemmta almenningi af öllum stéttum.

Í úthverfum Vínarborgar voru starfrækt nokkur gamanleikhús og eitt þeirra var Theater auf der Wieden. Þar sat við stjórnvölinn Emanuel Schikaneder, leikari og söngvari sem hafði um árabil ferðast um álfuna með leikflokk sinn. Þeim Mozart hafði orðið vel til vina þegar Schikaneder lék í Salzburg áratug fyrr. Einnig voru góðir kunnleikar með Mozart og öðrum flytjendum við húsið. Nægir þar að nefna að ein aðalsöngkonan við leikhús Schikaneders – sú sem fyrst söng Næturdrottninguna – var Josepha Hofer, mágkona Mozarts.

Því hlaut að koma að því að þeir félagar reyndu fyrir sér með heila óperu. Mozart samdi megnið af Töfraflautunni snemmsumars 1791 og eflaust hefur hann einnig haft hönd í bagga með að smíða söguþráðinn. Pamínu hefur verið rænt af æðstaprestinum Sarastró. Móðir hennar, Næturdrottningin, felur prinsinum Tamínó að bjarga henni. Í fylgd með honum er fuglaveiðarinn Papagenó sem er indæll einfeldningur. Brátt kemur í ljós að Sarastró er góðmennskan uppmáluð og þegar upp er staðið er Tamínó og Pamínu boðið að þreyta eldskírn sem gerir þau fullgilda meðlimi í Reglu sólarinnar.

Galdramáttur tónlistar er eitt meginstef Töfraflautunnar. Í fyrsta þætti fær Papagenó silfurklukkur og Tamínó gullflautu að gjöf frá þremur hirðmeyjum Næturdrottningarinnar. Gripirnir koma sér vel því að á meðan hljóðfærin eru innan seilingar hafa þeir félagar vald yfir öllum lifandi skepnum. Í lokaatriði fyrsta þáttar laðar Tamínó til sín dýr skógarins með leik sínum og skömmu síðar grípur Papagenó bjöllurnar og fær óvini sína til að gleyma stund og stað. Þannig verða söguhetjurnar á sinn hátt arftakar sjálfs Orfeusar sem gat tamið villidýrin með hörpuslætti sínum og var vinsælt óperuefni allt frá fyrstu tíð.

Engin önnur ópera Mozarts – eða samtímamanna hans ef út í það er farið – hefur að geyma jafn breitt litróf stíls og strauma. Persónurnar eru af ýmsum toga og tónlistin eftir því. Mozart semur ólgandi skrautaríur fyrir Næturdrottninguna, háleita sálma fyrir Sarastró, léttúðug alþýðulög fyrir Papagenó og blíða ástarsöngva fyrir Pamínu og Tamínó. Andstæðurnar birtast hvað skýrast í valdamestu persónum óperunnar, Næturdrottningunni og Sarastró. Næturdrottningin fer alla leið upp á f fyrir ofan háa c, hún kraumar af hatri og illvild og tónlist hennar er öll á iði. Sarastró dvelur á dýpstu tónum bassaraddarinnar og er friðsældin uppmáluð.

Margt hefur verið skrafað um meinta „merkingu“ Töfraflautunnar, og þá ekki síst um vísanir í dulspeki og helgiathafnir frímúrara. Schikaneder og Mozart voru báðir frímúrarar og sá síðarnefndi samdi allnokkur tónverk til flutnings við athafnir reglunnar. Fjölmargt í Töfraflautunni vísar til speki frímúrara. Prestarnir ákalla egypsku goðin Ísis og Ósíris; til að hljóta vígslu í reglu Sarastrós þurfa Tamínó og Pamína að standast próf þar sem frumefnin fjögur koma við sögu. Talan þrír gegnir veigamiklu hlutverki hjá frímúrurum og hana er víða að finna í óperunni. En austurrísk yfirvöld höfðu horn í síðu leynisamtaka og blómaskeið frímúrara í Vínarborg var um garð gengið þegar Töfraflautan varð til. Þeir Schikaneder og Mozart leituðu víða fanga við gerð sögunnar og vísanir í fræði frímúrara eru aðeins einn þráður af mörgum.

 

Töfraflautan var frumsýnd 30. september 1791 og Mozart stýrði sjálfur fyrstu tveimur sýningunum. Hann hafði aldrei fyrr upplifað þvílíkar viðtökur í Vínarborg. Þegar vika var liðin af sýningartímanum ritaði hann eiginkonu sinni glaður að endurtaka hefði þurft þrjú atriði eftir ákaft lófatak. Níu árum síðar hafði Töfraflautan verið sýnd 200 sinnum við Wieden-leikhúsið og sömuleiðis í mörgum helstu borgum álfunnar – Prag, Berlín, Amsterdam, München, Flórens og Sankti Pétursborg. Nótnaforlög prentuðu vinsælustu söngvana í ótal útgáfum og útsetningum, tónskáld á borð við Beethoven sömdu tilbrigði við lögin, skáldjöfurinn Goethe hugleiddi að skrifa framhald sögunnar.

Eins og öll meistaraverk listarinnar má túlka Töfraflautuna og njóta hennar á margvíslegan hátt. Hún er í senn ævintýri og helgileikur, trúðslæti og vígsluathöfn. Það segir sína sögu að tvö lög úr óperunni hafa fest rætur á Íslandi, annað sem barnagæla (Hann Tumi fer á fætur) en hitt sem jólasálmur (Í dag er glatt í döprum hjörtum). Töfraflautan er líka afkvæmi upplýsingaraldarinnar og boðar frelsi og bræðralag meðal manna hvað sem líður stöðu þeirra í þjóðfélaginu. Í fyrsta þætti gengur prinsinn Tamínó fram á fuglaveiðarann Papagenó og spyr hver hann sé. Hann svarar án þess að hika: „Maður, rétt eins og þú.“ Jafnvel Pamina hlýtur að lokum inngöngu í reglu Sarastrós, sem telst því framsýnni en samtök frímúrara hvað varðar jafnrétti kynjanna. Mozart og Schikaneder reyna að sjá til þess að allir þegnar þjóðfélagsins, ungir sem aldnir, eigi sinn málsvara í Töfraflautunni og finni þar eitthvað við sitt hæfi. Hún er, í stuttu máli sagt, ópera fyrir alla.

Árni Heimir Ingólfsson