EN

Wagner og Mozart – Hádegistónleikar

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
3. feb. 2022 » 12:10 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa
Hlusta
  • Efnisskrá

    Richard Wagner Siegfried Idyll
    W.A. Mozart Sinfónía nr. 29

  • Hljómsveitarstjóri

    Daníel Bjarnason

Á hádegistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands fimmtudaginn 3. febrúar verður boðið upp hrífandi efnisskrá með verkum eftir Wagner og Mozart. Siegfried Idyll er eitt óvenjulegasta verkið á verkaskrá Wagners, sem einbeitti sér að mestu að óperusmíði. Þessi hrífandi tónsmíð var afmælisgjöf hans til eiginkonu sinnar, Cosimu, skömmu eftir að hún hafði fætt son þeirra, sem fékk nafnið Siegfried með vísun í söguhetjuna í samnefndri óperu Wagners, Sigurð Fáfnisbana.

Sinfónía nr. 29 eftir Mozart er ein stórkostlegasta æskusmíð meistarans, samin þegar hann var aðeins 18 ára gamall. Margir telja þetta verk marka tímamót á ferli Mozarts, að hér hafi hann sprottið fram sem fullþroska sinfóníutónskáld sem hafði alla þræði í hendi sér. Sinfónían einkennist af birtu og ljóðrænu, og er borin uppi af þeirri einskæru sköpunargleði og hugviti sem einkenndi Mozart alla tíð. 

Daníel Bjarnason hefur átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands í rúman áratug, bæði sem hljómsveitarstjóri og tónskáld. Hann var staðarlistamaður á árunum 2015–2018 og aðalgestastjórnandi árin 2019–2021, en starfar nú með sveitinni sem „listamaður í samstarfi“ (Artist in Association). Tónsmíðar Daníels hafa vakið mikla athygli víða um heim og hafa margsinnis hljómað á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Meðal verkefna sem framundan eru með Daníel og Sinfóníuhljómsveit Íslands er þriðji píanókonsert hans, sem saminn er fyrir Víking Heiðar Ólafsson, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Fílharmóníusveitina í Los Angeles. Verkið verður frumflutt á Íslandi þann 3. mars næstkomandi. Daníel og Sinfóníuhljómsveit Íslands voru tilnefnd til Grammy-verðlauna fyrir Besta hljómsveitarflutning árið 2020, fyrir plötuna Concurrence sem gefin var út hjá Sono Luminus.