EN

Rómeó og Júlía - Skólatónleikar

Bókunartímabilinu er lokið.

Rómeó og Júlía eftir Shakespeare er ein áhrifamesta ástarsaga allra tíma og hefur orðið ótal listamönnum innblástur. Einn af þeim var Tsjajkovskíj sem samdi hinn fræga forleik sem heyrist á framhaldsskólatónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar.

Föstudagur - 15. september 2017 - kl. 11:00

Segja má að Tsjajkovskíj hafi fundið sína eigin rödd með forleiknum um Rómeó og Júlíu. Hann var tiltölulega óreyndur sem hljómsveitartónskáld og hafði aðeins samið eina sinfóníu, enda ekki nema 29 ára gamall. Tsjajkovskíj sótti aftur í sjóð Shakespeares síðar á ferlinum – forleiki byggða á Ofviðrinu (1873) og Hamlet (1878) – en hvorugt þessara verka skákar þó Rómeó og Júlíu-forleiknum hvað vinsældir varðar.

Ekki verður annað sagt en að vel hafi tekist til, því að í hljómsveitarforleik Tsjajkovskíjs renna form og innihald saman á sérlega vel heppnaðan hátt. Verkið hefst á hægum inngangi sem hefur á sér trúarlegan blæ og lýsir Bróður Lárens í klausturklefa sínum. Meginhluti forleiksins er í sónötuformi, og tvær meginhugmyndir eru ráðandi. Fyrra stefið er ágengt og ofsafengið og lýsir óvináttu Kapúlett-og Montag-ættanna, en hið seinna lýsir ástum Rómeós og Júlíu. Niðurlagið byggir einnig á ástarstefinu, en nú er það kaldur og lífvana útfararmars.

Hér verður hægt að bóka sæti á skólatónleika frá kl. 9:00 þann 1. september.