EN

Sinfóníuhljómsveit Íslands

Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð vorið 1950 og hefur um árabil verið í fremstu röð hljómsveita á Norðurlöndum. Hljómsveitin hefur fengið afbragðs dóma jafnt fyrir hljóðritanir sínar sem og tónleika heima og erlendis. Vorið 2011 varð Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Sinfóníuhljómsveit Íslands var stofnuð vorið 1950 og hefur um langt árabil verið í fremstu röð hljómsveita á Norðurlöndum enda fengið afbragðs dóma jafnt fyrir hljóðritanir sínar sem og tónleika heima og erlendis. Vorið 2011 varð Harpa, tónlistar- og ráðstefnuhús, heimili Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hljómsveitin heldur um 100 tónleika á hverju starfsári, m.a. áskriftartónleika með heimsþekktum stjórnendum og einleikurum sem útvarpað er beint á Rás 1, fjölskyldu- og skólatónleika ásamt því að hljóðrita fyrir innlend og erlend útgáfufyrirtæki. Hljóðritanir hljómsveitarinnar hafa komið út m.a. á vegum Deutsche Grammophon, Chandos og BIS, og hafa hlotið fjölda viðurkenninga auk tilnefningar til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitardisk.

Hljómsveitin hefur komið fram á tónleikum við góðan orðstír m.a. í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Frakklandi og Japan. Í nóvember 2019 hélt hljómsveitin í velheppnaða tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis með Daníel Bjarnasyni aðalgestastjórnanda hljómsveitarinnar og Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara. Í febrúar 2020 hélt hljómsveitin síðan í glæsilega tónleikaferðalag um Bretland ásamt hljómsveitarstjóranum Yan Pascal Tortelier.

Finnski stjórnandinn Eva Ollikainen hefur verið ráðin í stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda en hún tekur við stöðunni í byrjun starfsársins 2020/21. Osmo Vänskä er heiðursstjórnandi hljómsveitarinnar og Vladimir Ashkenazy er aðalheiðursstjórnandi hennar. Anna Þorvaldsdóttir tók við stöðu staðartónskálds í byrjun árs 2018, en áður hafði Daníel Bjarnason gegnt starfinu til þriggja ára en hann gegnir núna stöðu aðalgestastjórnanda hljómsveitarinnar. Bjarni Frímann Bjarnason var ráðinn staðarhljómsveitarstjóri árið 2018.