EN

Ágrip af sögu Sinfóníuhljómsveitar Íslands

Sinfóníuhljómsveit Íslands var formlega stofnuð þann 9. mars árið 1950. Þann dag hélt hin nýstofnaða 39 manna hljómsveit fyrstu tónleika sína í Austurbæjarbíói í Reykjavík (sjá mynd frá tónleikunum hér að ofan).

Ríkisútvarpið var helsti bakhjarl hljómsveitarinnar til bráðabirgða en rekstrargrundvöllurinn var ótryggur. Góðir menn lögðu  nótt við dag til að finna lausn til framtíðar. Þótt margir legðu þar hönd á plóg verður að geta þeirra sem fremstir stóðu í baráttunni en það voru þeir Ragnar Jónsson í Smára, Haukur Gröndal og Björn Jónsson kaupmaður úr röðum Tónlistarfélagsins í Reykjavík, tónskáldin Jón Þórarinsson og Páll Ísólfsson og stjórnmálamennirnir Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra og Gunnar Thoroddsen borgarstjóri. Þá sættu hljóðfæraleikararnir sig við lág laun og samning án uppsagnarfrests þannig að starfið í hljómsveitinni gat einungis verið aukastarf meðfram annarri vinnu. 

Ríkisútvarpið sá um rekstur hljómsveitarinnar fyrstu fjögur árin en þá var hún gerð að sjálfstæðri stofnun og rekin með framlögum frá Ríkisútvarpinu, Þjóðleikhúsinu, ríki og borg. Þetta fyrirkomulag hélst til vorsins 1961 en þá tók Ríkisútvarpið aftur við rekstrinum. Það sama ár flutti hljómsveitin starfsemi sína í Háskólabíó og hóf í fyrsta sinn sölu aðgöngumiða í áskrift. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti starfsemi sína í Háskólabíó árið 1961 og var það aðsetur hennar í hálfa öld. Hér sjást skólabörn flykkjast á tónleika hljómsveitarinnar, líklega um 1962–65.

 

Árið 1982 voru lög um hljómsveitina loks samþykkt á alþingi eftir að málið hafði verið rætt á fjórum þingum. Þannig öðlaðist Sinfóníuhljómsveit Íslands tilverurétt eftir rúmlega þriggja áratuga baráttu. Tímamót urðu í starfsemi sveitarinnar árið 1970 þegar hún var leyst undan skyldum við Þjóðleikhúsið. Má segja að uppfrá því hafi hljómsveitinni stöðugt vaxið ásmegin. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands fór í sína fyrstu utanlandsferð árið 1977 og heimsótti þá frændur okkar í Færeyjum. Síðan þá hefur hún leikið í fjölmörgum löndum bæði austan hafs og vestan og sumarið 2014 kom hljómsveitin í fyrsta sinn fram á BBC-Proms tónleikum í London.

ISO076_1605523335801

Sinfóníuhljómsveit Íslands á sviði í Royal Albert Hall á
Proms-hátíðinni í London undir stjórn Ilan Volkov árið 2014.

 

Sinfóníuhljómsveit Íslands  hefur leikið inn á fjölda geisladiska fyrir útgáfufyrirtækin Chandos, BIS og Naxos og hefur leikur hennar vakið athygli víða um lönd.

Árið 1988 teiknaði Aðalbjörg Þórðardóttir nýtt merki fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands sem er notað enn í dag. Hún fylgdi því úr hlaði með þessum orðum: „F-lykillinn er rittákn í tónlist eins og öllum er kunnugt, sem þekkja eitthvað til tónlistar. Fuglinn hefur verið tákn tónlistar í gegnum aldirnar. Saman mynda þessi tvö tákn, F-lykillinn og fuglinn, eina heild sem líkist eilífðar-tákninu (Jing-Jang), en þarð er mjög við hæfi, þar sem tónlistin er eilíf.

Stærstu tímamót í sögu Sinfóníuhljómsveitarinnar urðu þegar hún flutti starfsemi sína í Hörpu í maí 2011. Hljómur hljómsveitarinnar sem í dag skipar um 90 fastráðna hljóðfæraleikara fékk nú að njóta sín til fullnustu og tónlistarmennirnir, yfirstjórn og annað starfsfólk öðlaðist loks starfsumhverfi við hæfi. 

Með tilkomu Hörpu fékk Sinfóníuhljómsveit Íslands loks tónleikasal á heimsmælikvarða. Hér er hljómsveitin ásamt Víkingi Heiðari Ólafssyni einleikara á opnunartónleikum Hörpu í maí 2011. Ljósmynd: Ómar Óskarsson.

 

 

Hér má lesa ítarlegri sögu hljómsveitarinnar