EN

Aflýst: Britten og Haydn

Dagsetning Staðsetning Verð
15. okt. 2020 » 20:00 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Aflýst
 • Efnisskrá

  Wolfagang Amadeus Mozart Don Giovanni, forleikur
  Benjamin Britten Lachrymae fyrir víólu og strengjasveit
  Haukur Tómasson Nature morte fyrir hörpu, simbalom og kammersveit
  Joseph Haydn Sinfónía nr. 104, „Lundúnar-sinfónían“

 • Hljómsveitarstjóri

  Bjarni Frímann Bjarnason

 • Einleikarar

  Þórunn Ósk Marínósdóttir víóla
  Katie Buckley harpa
  Frank Aarnink slagverk

Í ljósi nýjustu tilmæla frá yfirvöldum vegna útbreiðslu kórónuveirunnar hefur Sinfóníuhljómsveitar Íslands ákveðið að aflýsa tónleikunum. Miðahafar geta nýtt upphæðina á aðra tónleika hljómsveitarinnar eða fengið miðana endurgreidda í miðasölu Hörpu.

Heiðskír Vínarklassík mætir nýrri tónlist á þessari áhugaverðu efnisskrá. Forleikur Mozarts að óperunni Don Giovanni er hádramatískur eins og hæfir söguefninu, en síðasta sinfónía Haydns, sem telst eitt afkastamesta sinfóníuskáld sögunnar, er lífsgleðin uppmáluð.

Benjamin Britten var eitt fremsta tónskáld Bretlands á 20. öld og sameinaði gamalt og nýtt í verkum sínum. Lachrymae er hugleiðing um lútusöng frá því um aldamótin 1600, eftir hið vinsæla söngvaskáld John Dowland. Nature morte er nýlegt verk eftir Hauk Tómasson, frumflutt á Myrkum músíkdögum fyrr á þessu ári. Þá lýsti enski gagnrýnandinn Simon Cummings því sem „frábæru verki eftir eitt af skemmtilegustu tónskáldum Íslands“.

Einleikarar eru Þórunn Ósk Marínósdóttir víóluleikari, Katie Buckley hörpuleikari og Frank Aarnink slagverksleikari, sem leikur á hið áhugaverða ungverska hljóðfæri cimbalom í nýju verki Hauks Tómassonar.

Miðasala er hafin á tónleikana
Í ljósi hertra samkomutakmarkanna er miðaframboð á tónleikana takmarkað við 100 manns í hvert sóttvarnarhólf. Í það minnsta eitt autt sæti er á milli allra pantana til að tryggja nálægðarmörk milli gesta. Athugið að samkvæmt sóttvarnarlögum ber gestum skylda að vera með grímu á tónleikunum. Við biðjum tónleikagesti að gæta vel að sóttvarnarreglum og kynna sér leiðbeiningar til tónleikagesta áður en mætt er á tónleikana. Stöndum saman, við erum öll almannavarnir.