EN

Eva stjórnar Ravel ­

Tryggðu þér besta verðið með 20% afslætti með því að kaupa miða á ferna tónleika eða fleiri – Regnbogakort
Dagsetning Staðsetning Verð
19. jan. 2023 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 2.900 - 8.700 kr.
 • Efnisskrá

  Wolfgang Amadeus Mozart Sinfónía nr. 35, „Haffner“
  Maurice Ravel Píanókonsert í G-dúr
  Haukur Tómasson Jörð mistur himinn
  Maurice Ravel Dafnis og Klói, svíta nr. 2

 • Hljómsveitarstjóri

  Eva Ollikainen

 • Einleikari

  Claire Huangci

Tónleikakynning » 19. jan. kl. 18:00 — Hörpuhorn

(Tónleikarnir kölluðust áður Eva og Grubinger

Af óviðráðanlegum orsökum þurfti austurríski slagverksleikarinn Martin Grubinger að draga sig í hlé og getur ekki flutt slagverkskonsert Daníels Bjarnasonar á þessum tónleikum eins og áður var auglýst. Í stað hans leikur bandaríski píanóleikarinn Claire Huangci hinn glitrandi fagra og kraftmikla píanókonsert Maurice Ravel í G-dúr, síðasta stóra tónverkið sem tónskáldið lauk við á ævinni. Að auki fá tónleikagestir að heyra frumflutning á öðru íslensku tónverki, verkinu Jörð mistur himinn eftir Hauk Tómasson sem kallast á við málverk Georgs Guðna Haukssonar og kallar fram draumkennda liti og áferð í tónum. Eva Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, heldur um tónsprotann.

Bandaríski píanóleikarinn Claire Huangci er þekkt fyrir fágaðan og listrænan leik sinn í bland við tæknilega yfirburði í verkum sem spanna allt frá barokki til okkar daga. Huangci bar sigur úr býtum í Geza Anda-píanókeppninni 2018 og hefur komið fram með mörgum virtustu hljómsveitum Evrópu í helstu tónleikasölum heims. Bæði fágun hennar og sprengikraftur fá að njóta sín í píanókonserti Ravels í G-dúr, en í honum mætast áhrif rífandi Baskaþjóðlaga, tilþrif úr bandarískri jazztónlist og andblær austurlenskrar fágunar í ómótstæðilega hrífandi glæsitónsmíð.

Árið 1782 fékk Mozart beiðni um að semja verk í tilefni af því að til stóð að slá aðalsmanninn Sigmund Haffner til riddara. Mozart var um þetta leyti önnum kafinn; hann var að stjórna óperu sinni, Brottnáminu úr kvennabúrinu, vann við tónsmíðar og var um það bil að ganga í hjónaband. Hann lét þó til leiðast og samdi kvöldlokku í sex þáttum. Þegar Mozart var beðinn nokkru síðar um að stjórna tónleikum með eigin verkum vantaði hann sinfóníu. 

Hann greip til þess ráðs að fækka um tvo þætti í kvöldlokkunni sem tileinkuð var Haffner og stækka hljómsveitina, úr varð Haffnersinfónían nr. 35. Þótt Mozart hafi þurft að hafa hröð handtök við tónsmíðarnar hafði andagiftin ekki látið á sér standa og verkið sló í gegn. Sjálfur Austurríkiskeisari var viðstaddur frumflutninginn og fagnaði hann svo ákaft að athygli vakti.

Um þessar mundir eru 30 ár liðin frá því að Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti fyrst verk eftir Hauk Tómasson (f. 1960), en hann hefur verið í fremstu röð íslenskra tónskálda um árabil. Verkið Jörð mistur himinn sem frumflutt verður á þessum tónleikum sækir innblástur sinn í málverk Georgs Guðna Haukssonar (1961-2011). Verkið er draumfagurt og margslungið, enda tengir tónskáldið málverk listamannsins við „náttúru, samruna, innri hreyfingu, kyrrð.“

Ballettinn Dafnis og Klói eftir Maurice Ravel var frumfluttur í júní árið 1912, en verkið pantaði hinn víðfrægi stjórnandi Rússneska ballettsins, Sergei Diaghilev. Balletttónlistin, sem Ravel kallaði „kóreógrafíska sinfóníu í þremur hlutum“ tekur í heild um klukkutíma í flutningi og er viðamesta hljómsveitarverk hans. Fá tónskáld hafa staðist Ravel snúning þegar kemur að því að laða fram ólíka liti sinfóníuhljómsveitarinnar og í fáguðum tónvefnaði verksins lifna við jafnt munúðarfullar skógardísir og trylltir sjóræningjar. Til að auðvelda flutning verksins sauð Ravel saman tvær styttri hljómsveitarsvítur sem heyrast mun oftar í tónleikasölum heimsins en ballettinn í heild og hér hljómar svíta nr. 2

*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.

Sækja tónleikaskrá