Dagsetning | Staðsetning | Verð |
---|---|---|
17. okt. 2024 » 19:30 » Fimmtudagur | Eldborg | Harpa | 2.900 - 9.800 kr. |
-
Efnisskrá
Béla Bartók Tónlist fyrir strengi, slagverk og selestu
Wolfgang Amadeus Mozart Hornkonsert nr. 4
Robert Schumann Sinfónía nr. 4
-
Hljómsveitarstjóri
-
Einleikari
Líkt og svo mörg tónverka Roberts Schumann á fjórða sinfónían sér djúpar og ástríðufullar rætur í einkalífi tónskáldsins. Hann hóf að semja hana skömmu eftir langþráð brúðkaup sitt og Clöru Wieck og fékk hún frumgerð verksins í 22 ára afmælisgjöf. Sinfónían var langt á undan sinni samtíð og var þar tekið stórt stökk frá hinu hefðbundna klassíska formi. Hún féll því ekki í kramið hjá áheyrendum í fyrstu, og lagði Schumann hana til hliðar. Hann samdi tvær sinfóníur til viðbótar áður en verkið birtist aftur í endurskoðaðri mynd árið 1851 og hlaut þá einróma lof. Á þessum tónleikum er það einn fremsti hljómsveitarstjóri Tékklands, Tomáš Hanus, sem stýrir þessu öndvegisverki, en Hanus er aðalhljómsveitarstjóri þjóðaróperunnar í Wales og steig síðast á svið í Eldborg fyrir réttu ári. Flutningur hans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands á áttundu sinfóníu Dvořáks þótti einstaklega vel heppnaður.
Einleikari í fjórða hornkonserti Mozarts er Stefán Jón Bernharðsson, leiðari horndeildar Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Stefán Jón er eftirsóttur á erlendri grundu og er reglulega boðið að vera gestaleiðari hjá erlendum hljómsveitum. Á þessu ári hefur hann m.a. leikið með La Scala óperunni og New York Fílharmóníunni. Stefán Jón hljóðritaði fjórða hornkonsert Mozarts með Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 2000 en þetta verður í fyrsta sinn sem konsertinn hljómar í heild sinni á tónleikum hljómsveitarinnar. Líkt og aðrir hornkonsertar Mozarts var hann saminn fyrir Joseph Leutgeb, sem var ekki aðeins fjölskylduvinur Mozart-fjölskyldunnar heldur einnig fremsti hornleikari sinnar tíðar. Verkið er þannig bæði hávirtúósískt og fullt af innilegum, dillandi húmor, ekki síst í hinu fræga, leikandi skemmtilega lokarondói.
Tónleikarnir hefjast á Tónlist fyrir strengi, slagverk og selestu eftir Béla Bartók þar sem úthugsuð pólýfónía, kraftmikil þjóðlagastef og dulúðug næturtónlist hljóma í bland. Einstakt andrúmsloft verksins hefur skipað því veglegan sess í samtímamenningunni, ekki síst í heimi kvikmyndalistarinnar.
*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.