Dagsetning | Staðsetning | Verð | ||
---|---|---|---|---|
24. okt. 2024 » 19:30 » Fimmtudagur | Eldborg | Harpa | 5.900 - 15.900 kr. | ||
Kaupa miða |
-
Efnisskrá
Hildur Guðnadóttir The Fact of the Matter
Edward Elgar Sellókonsert
Ígor Stravinskíj Petrushka (1947)
-
Hljómsveitarstjóri
-
Einleikari
-
Kór
-
Kórstjóri
Stefan Sand
Bandaríski sellóleikarinn Yo-Yo Ma er einn þekktasti núlifandi hljóðfæraleikari heims og koma hans því sannkallaður stórviðburður í íslensku tónlistarlífi. Hann hefur gefið út yfir 120 hljóðritanir og hlotið Grammy-verðlaunin 19 sinnum, auk fjölda annarra verðlauna. Áhrif hans ná langt út fyrir tónlistarheiminn en hann hefur um áratugaskeið nýtt tónlistina í baráttu fyrir friði og samvinnu og hefur til að mynda verið einn af friðarsendiboðum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006.
Á þessum tónleikum leikur Yo-Yo Ma hinn áhrifamikla sellókonsert Elgars með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar. Verkið var samið skömmu eftir lok heimsstyrjaldarinnar fyrri og felur í sér sáran söknuð eftir liðnum tíma. Konsertinn er margbrotin flétta sigurs og sorgar, ljóðrænu og ómstríðu — eins konar trúarjátning til listarinnar frammi fyrir eyðileggingu stríðsins.
Fact of the Matter eftir Hildi Guðnadóttur var frumflutt á BBC Proms tónlistarhátíðinni árið 2022. Hildur hefur sagt verkið vera viðbragð við þeirri sundrung sem ríkir milli fólks í veröld þar sem allir hafa sína eigin skoðun á staðreyndum. „Við erum í afturför og í stað þess að taka höndum saman virðumst við hafa meiri áhuga á viðurkenningu þess að við höfum rétt fyrir okkur,“ sagði Hildur í viðtali eftir frumflutninginn.
Tónleikunum lýkur með svítum Stravinskíjs úr ballettinum Petrushku. Petrushka er ómótstæðilega skemmtilegur ballett þar sem heyra má í mótun þá kraftmiklu höfundarrödd Stravinskíjs sem síðar átti eftir að umbylta tónlistarsögunni til frambúðar.
*Tónleikarnir eru u.þ.b. tvær klst. með tuttugu mínútna hléi.